Morgunblaðið segir frá því í gær að einkaskólar séu betri en skólar hins opinbera og að auki að samkeppni frá einkaskólum bæti opinberu skólana. Þetta mun vera niðurstaða sænskrar skýrslu sem byggir á meðaleinkunn nemenda þar í landi. Í frétt Morgunblaðsins segir að einkaskólar í Svíþjóð fái framlag fyrir hvern nemanda frá viðkomandi sveitarfélagi til jafns við það sem þurfi í opinberum skóla. Þetta séu reglur sem gilt hafi frá árinu 1992 og nú séu 5,7% sænskra grunnskólabarna í einkaskóla og 8,2% framhaldsskólanemenda.
Þessi sænska rannsókn er aðeins enn ein staðfestingin á kostum einkaskóla, því að áður hafa fjölmargar rannsóknir sýnt hið sama; valfrelsi nemenda og foreldra um skóla, samkeppni milli skóla og einkaskólar hafa jákvæð áhrif á menntun. En þó að Svíar, sem ekki hafa verið taldir um of hallir undir einkaframtakið, hafi fyrir rúmum áratug skilið það að skynsamlegt væri fyrir hið opinbera að veita einkaskólum sama tækifæri og opinberum skólum, hafa yfirvöld í Reykjavíkurborg ekki enn áttað sig á þessu. R-listinn berst enn gegn einkaskólum og baráttan hefur farið þannig fram að einkaskólar hafa ekki fengið sama framlag og opinberir skólar til að mennta hvern nemanda.
Þetta síðast nefnda kemur fram í fréttatilkynningu sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér í gær. Þar segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi í maí 2003 lagt fram tillögu um að borgin greiddi sambærilegt fjármagn með hverjum reykvískum nemanda óháð því hvort hann gengi í einkarekinn skóla eða borgarrekinn, en R-listinn hafi vísað tillögunni frá. Um sumarið hafi R-listinn þó gefið aðeins eftir og ákveðið að hækka framlagið til einkarekinna skóla þannig að nú fái þeir sama framlag á nemanda og sá opinberi skóli sem fær lægsta framlagið. Þetta er skref í rétta átt en var ekki stigið fyrr en einkaskólarnir í borginni voru við það að komast í þrot sökum fjársveltis.
Í gær lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins svo fram tillögu í borgarstjórn um hafnar yrðu samningaviðræður við fulltrúa einkaskóla um stöðu og hlutverk skólanna og fjárhagslegan stuðning við þá. Markmiðið með viðræðunum skyldi vera að tryggja raunverulegt valfrelsi og að allir nemendur í leikskóla og grunnskóla nytu sama stuðnings frá borginni, óháð rekstrarformi. Því miður brást R-listinn við eins og áður og vísaði tillögunni frá. R-listinn sýndi í gær, eins og hann hefur oft sýnt áður, að hann vill halda skólarekstri alfarið í höndum hins opinbera.