MBLLOGOFormaður Tóbaksvarnarráðs lýsti því yfir á dögunum að reyklaus veitingahús væru afar vinsæl og þangað flykktist fólk þegar búið væri að úthýsa reyknum. Hins vegar vilji svo gott sem engir fara á veitingahús þar sem reykingar eru stundaðar og þau verði miskunnarlaust undir í samkeppninni við reyklausu húsin. Því bæri að banna reykingar á veitingahúsum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins beið ekki boðanna og tók undir þessa röksemdarfærslu.
Snjalla röksemdarfærslu má auðvitað nota aftur og aftur og jafnvel á önnur mál ef sérstaklega vel tekst til. Í leiðara Morgunblaðsins í gær voru hvalveiðar teknar til skoðunar. Aðalrök Morgunblaðsins gegn hvalveiðum Íslendinga eru þau að hér og hvar um heiminn er til fólk sem er á móti hvalveiðum af hreinni tilfinningasemi. Blaðið telur að þótt það mæli ekkert á móti því að nýta þessa auðlind fremur en aðrar eigi Íslendingar ekki að gera það því það muni raska ró þessa fólks. Þessi afstaða, að vera illa upplýstur og láta tilfinningar hlaupa með sig í gönur, hefur af einhverjum ástæðum hlotið alþjóðlega viðurkenningu undir nafninu umhverfisvernd. Fyrir því vill leiðarahöfundurinn að Íslendingar bugti sig og beygi.
En þetta eru þó veik rök hjá því þegar höfundurinn grípur til snilldarbragðs formanns tóbaksvarnarráðs: Það vill enginn kaupa hvalkjöt og því er rétt að banna hvalveiðar.