Vefþjóðviljinn gat haldið upp á gærdaginn af ýmsum ástæðum. Ríkisstjórnin boðaði að svonefnd fjölmiðlalög verði felld úr gildi. Þar með er einnig búið að stöðva þá atburðarás sem samfylkingartákn þjóðarinnar hratt af stað með blaðamannafundi á Bessastöðum 2. júní. Vefþjóðviljinn var andvígur fyrrnefndum lögum eins og öllum öðrum samkeppnislögum sem snúa að einkafyrirtækjum. Hann var einnig andvígur því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu sem allir vita að myndi snúast um allt annað en efnisatriði málsins.
Það má gleðjast yfir þessu, í bili að minnsta kosti.
Hvar er annars fjölmiðlafrumvarp stjórnarandstöðunnar? Árum saman hafa þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna lagt á það áherslu að setja þurfi lög um fjölmiðla. Frá því ríkisstjórnin lagði fram frumvarp til breytinga á samkeppnis- og útvarpslögum hefur enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar hafnað því að setja beri sérstök lög um starfsemi fjölmiðla. Þeim fannst frumvarp ríkisstjórnarinnar hins vegar ekki gott og nefndu einkum þá ástæðu að frumvarpið hefði farið of geyst um sali Alþingis þótt fá mál hafi fengið meiri umræðu.
Nú verður sumsé efnt til sérstaks þings um lagaumhverfi fjölmiðla. Það stóð til að þingið snerist um ný lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnarandstaðan hafði boðað að hún myndi leggja fram sitt eigið frumvarp um málið. Því verður vart trúað að þegar efnt er til sérstaks þings um lagaumhverfi fjölmiðla um hásumar að stjórnarandstaðan ætli að sitja hjá og tauta áfram um málsmeðferðina. Ekki ætlar stjórnarandstaðan áfram að sitja á efnislegum tillögum sínum um málið?
Já, hvar er fjölmiðlafrumvarp stjórnarandstöðunnar?