Ég tel að það sé mikilvægt, og ég segi það af hjartans einlægni, að reynt sé að lenda þessu máli í sæmilegri sátt og við setjumst niður við það verkefni að búa til fjölmiðlalög þar sem að við getum að minnsta kosti náð sátt um aðferðafræðina þó að náist kannski ekki endanleg sátt um niðurstöðuna. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. |
V
Ingibjörg vill setja fjölmiðlalög af hjartans einlægni en getur ekki skýrt hvernig þau eigi að vera. |
efþjóðviljinn spurði að því í gær hvar fjölmiðlafrumvarp stjórnarandstöðunnar væri. Sem kunnugt er þykir stjórnarandstöðunni fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar vont en það vantar alveg að stjórnarandstöðuflokkarnir sýni okkur hvernig gott fjölmiðlafrumvarp lítur út. Það hefði mátt búast við því að flokkar, sem telja lög um fjölmiðla mikilvægustu lög sem hægt er að setja ef marka má hve mikla áherslu þeir leggja á mikla og umfram allt langdregna umræðu um þau, myndu sýna einhverja tilburði í þá átt að semja frumvarp til slíkra laga. Ef marka má heiftina og hamagang stjórnarandstöðunnar gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar ætti það að vera hægur vandi að semja skárra frumvarp. Það ætti einu að gilda hvað stjórnarandstaðan leggur fram, allt væri væntanlega betra en það sem ríkisstjórnin býður upp á.
Nei, nei. Nú staðfestir varaformaður Samfylkingarinnar það sem vitað var að flokkurinn vilji vissulega setja slík lög en nú sé rétt að setjast niður og skoða málið. Bíðum nú við. Hvernig getur varaformaður Samfylkingarinnar hafa haft svo sterkar skoðanir undanfarna mánuði á máli sem hann á eftir að setjast niður og skoða? Og hvernig getur það verið forgangsatriði að ná sátt um „aðferðafræðina“ þegar svo mikilvæg efnisatriði, stjórnarskrárbrot, mannréttindabrot og hvar veit hvað, hanga á spýtunni?
Vefþjóðviljinn fylgist kannski ekki alltof vel með en þegar hann flettir upp í sjálfum sér kemur í ljós að hann lagðist gegn sérstökum lögum um fjölmiðla í janúar. Honum var því ljóst í ársbyrjun að slík lög væru í bígerð. Þetta mátti raunar öllum vera ljóst því búið var að skipa nefnd til að skoða hvaða leiðir væru færar við slíka lagasetningu. Síðan hefur þetta, með réttu eð a röngu, orðið að einu stærsta fréttamáli Íslandssögunnar.
Við þetta bætist svo að búið er að ræða þetta mál lengur á Alþingi en flest önnur og stjórnarandstaðan átti stóran þátt í því. Þingið hefur jafnvel verið kallað saman að nýju vegna þessa máls. Allt kemur fyrir ekki. Stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að gera betur en ríkisstjórnin.