Ný lög sem banna reykingar á krám og öðrum veitingastöðum hafa verið í gildi í New York í um hálft ár. Samkvæmt upplýsingum ýmissa samtaka kráa- og veitingahúsaeigenda hafa viðskipti slíkra staða dregist saman um 20%-60% og fjöldi þeirra hefur orðið að hætta rekstri í kjölfar bannsins. Stuðningsmenn bannsins láta sér fátt um finnast og nú vilja ýmsir þeirra ganga enn lengra. Á þingi New York ríkis hefur verið lagt fram frumvarp þess efnis að bæta við reykingabanni í bifreiðum, og þá er ekki verið að tala um almenningsvagna heldur einkabíla. Þetta er sama sagan og ævinlega þegar öfgafullir og stjórnlyndir menn ná sínu fram, þeir vilja alltaf ganga lengra í að hafa vit fyrir öðrum og skerða frelsi annarra. Þeim nægir aldrei að taka eitt skref eða tvö, þeir þurfa alltaf að halda áfram þar til aðrir menn hafa ekkert svigrúm til athafna. Nú er búið að hafa af reykingamönnum þann möguleika að reykja á veitingahúsum í New York, og þá vilja hinir stjórnlyndu skipta sér af því hvað reykingamennirnir gera í eigin bílum. Þess verður örugglega ekki langt að bíða þar til einhverjir leggja fram frumvarp um algert bann við reykingum í New York, og þá geta yfirvöld farið gera stikkprufur með því að ryðjast inn á heimili fólks og kanna hvort lögunum sé framfylgt. Og stjórnlyndir andstæðingar reykinga segja þetta allt gert af góðum hug og af umhyggju fyrir reykingamönnum.
Yfirvöld í New York hafa reyndar þegar tekið skref í átt að algeru reykingabanni með því að hækka skatta á tóbak verulega. Þetta gerðu þau í júlí í fyrra með þeim afleiðingum að vindlingapakki kostar nú sem svarar um 550 krónum. Þessi óhóflega skattheimta hefur haft afleiðingar sem ættu ekki að þurfa að koma á óvart. Eins og jafnan þegar skattar eru hækkaðir í þeim tilgangi að draga úr neyslu, eða neysla tiltekinnar vöru er bönnuð með öllu, þá hefur orðið til svartur markaður. Nú má finna tóbakssala á götum New York borgar sem selja vindlinga á um 400 krónur pakkann og hafa ágætan hagnað af viðskiptunum. Í The New York Times var á dögunum sagt frá ungum manni sem áður hafði lífsviðurværi af sölu á maríúana, en hafði snúið sér að sölu á tóbaki og sagðist hagnast ámóta mikið nú og áður, eða um á að giska 10.000 krónur á dag. Annað efnið er bannað og hitt er óhóflega skattlagt, en eins og áður sagði eru afleiðingarnar svipaðar.