Þriðjudagur 24. júní 2003

175. tbl. 7. árg.

Í

Miðað við umfangsmikið skrifræði, ekki síst í landbúnaðarmálum, vekur furðu að nokkur maður skuli mæla göturnar í ESB – hvað þá að 9% íbúanna séu önnum kafnir við  þær mælingar.

 september á þessu ári munu viðskiptaráðherrar aðildarríkja Heimsviðskiptastofnunarinnar, WTO, hittast í Cancún í Mexíkó til að ræða aukið viðskiptafrelsi milli landa. Þessi fundur er þáttur í svokallaðri Doha-lotu, en hún snýst meðal annars um frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Rétt eins og fyrri daginn veldur sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins, CAP, vandræðum. Viðskiptaráðherrar þrjátíu aðildarríkja WTO hittust í Egyptalandi um helgina og komust að þeirri niðurstöðu að sú staðreynd að Evrópusambandinu hefur ekki tekist að laga landbúnaðarstefnu sína standi í vegi fyrir árangri af Doha-lotunni.

Helsta fyrirstaðan fyrir nauðsynlegum breytingum á landbúnaðarstefnunni er afstaða Frakka, en forseti Frakklands staðfesti síðastliðinn föstudag að framkomnar tillögur um breytingar á stefnunni væru óásættanlegar fyrir Frakka. Frakkland er eitt þeirra ríkja sem fær hvað mesta styrki vegna sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar, en hún var fyrsta sameiginlega stefna Evrópusambandsins – eins og það heitir núna – og tekin upp með Rómarsáttmálanum 1958. Litið var á landbúnaðarstefnu sambandsins sem bitling fyrir Frakka í staðinn fyrir tollavarnir fyrir iðnframleiðslu sem settar voru upp í þágu Þjóðverja. Landbúnaðarstefna þessa tollabandalags byggist á sameiginlegum innri markaði fyrir landbúnaðarvörur á verði sem er yfir heimsmarkaðsverði. Tollvarnir og tæknilegar hindranir koma í veg fyrir eðlilega samkeppni erlendra vara, auk þess sem bændur fá styrki frá sambandinu til að halda áfram óarðbærri framleiðslu sinni.

Yfir 5.000 mismunandi reglur eru í gildi vegna landbúnaðarstefnunnar og skrifræðið er umfangsmikið. Meðal þess sem embættismenn sambandsins taka sér fyrir hendur er að ákveða verð landbúnaðarafurða, en ýmis konar vinnu- og stýrihópar hittast reglulega til að vinna að framgangi stefnunnar. Oft eru haldnir verðákvörðunarfundir í þessum hópum í hverri viku.