Goebbels, in confronto a Berlusconi, era solo un bambino. |
– Romano Prodi |
Þeir komust í feitt um mánaðamótin, allir þeir sem hafa horn í síðu Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu. Og þeir eru margir. Hann kom vinstrimönnum frá völdum á Ítalíu, hann er ekki fullur af „Evrópuhugsjón“, hann veit ekki aura sinna tal. Hann er gjarnan óformlegur og jafnvel óheflaður í framgöngu og bætti svo gráu ofan á svart með því að styðja Bandaríkjamenn og Breta í herferð þeirra gegn Saddams-stjórninni í Írak. Og við þetta bætist, eins og fjölmiðlar þreytast ekki á að endurtaka, að Berlusconi hefur árum saman verið borinn ýmsum sökum um spillingu. Það þarf því engum að koma á óvart að hinir og þessir hugsi Berlusconi þegjandi þörfina og fagni og geri sem mest úr ef hann misstígur sig.
Og það er alveg hægt að halda því fram að ítalski forsætisráðherrann hafi misstigið sig með orðalagi sínu á Evrópuþinginu á dögunum, þar sem hann tókst á við þýskan þingmann sem mjög hafði sótt að honum. Ekki þarf að rekja þau orð frekar, því það hafa velflestir fjölmiðlar gert aftur og aftur síðustu daga, þó reyndar hafi allt látbragð Berlusconis mátt sýna mönnum hve lítil alvara bjó að baki orðum hans. En það skiptir víst engu máli og nú er bara að hamra á því að Berlusconi hafi sannað það sem allir hafi vitað, að hann er barbari og ruddi og þessir Rómverjar eru klikk.
Allt í lagi, Berlusconi hefði betur sleppt þessum orðum, þau voru ekki vel til fundin. En hneykslunin sem nú gengur út af fjölmiðlamönnum um Evrópu þvera og endilanga, ætli hún stafi nú af ummælunum eða hatrinu á manninum sem talaði? Halda menn að fjölmiðlar hefðu gengið af göflunum með sama hætti ef til dæmis forsætisráðherrar Belgíu, Portúgals eða Lúxemborgar hefðu talað á þennan hátt? Og ef mönnum er í raun alvara með hinni ofsafengnu hneykslun, alvara með heilu spegils-þáttunum, af hverju segja þeir þá ekkert yfir þeim orðum sem aðrir hafa jafnan haft um Berlusconi? Það eru ein sjö ár síðan Romano Prodi lýsti þeirri skoðun sinni að dr. Jósep Goebbels hefði aðeins verið sem barn í samanburði við Berlusconi. Ekki hneykslast menn á því. Engir fréttaskýringarþættir um það. Í umræðum á Evrópuþinginu á dögunum líkti belgískur þingmaður ítalska forsætisráðherranum við hinn kunna sameiningarsinna Evrópu, Atla Húnakonung. Enginn kvartar yfir því. Aðrir þingmenn, og meira að segja tímarit sem vilja láta taka sig alvarlega, kalla Berlusconi guðföðurinn og vita flestir hvaða ásökun felst í því heiti, sérstaklega þegar það er notað um Ítala. Enginn kvartar yfir þessu.
En þegar Berlusconi segir nokkur orð sem hann hefði betur ekki sagt, jafnvel þó að hann hafi verið brosandi út að eyrum, þá er hinum mildu, hófsömu evrópsku húmanistum nóg boðið. Þeim finnst þetta svívirða.