Þeir næðu víst ekki til tunglsins. Já, jafnvel þó að símreikningarnir sem Síminn sendir út á hverju ári yrðu lagðir hver við annan, þá næðu þeir „víst“ ekki til til tunglsins. Heldur bara til Kaupmannahafnar. Aðra leiðina. Frá Keflavík vel að merkja, það er miðað við Keflavík en ekki Reykjavík.
Einhvern veginn svona hljómaði nýleg frétt Morgunblaðsins. Og á þeirri frétt var skýring. Nokkrum dögum fyrr hafði Morgunblaðið nefnilega birt baksíðufrétt þess efnis að Síminn byði viðskiptavinum sínum nú að fá reikninga senda með rafrænum hætti og gæti það sparað mikinn pappír þar sem þeir reikningar sem fyrirtækið sendi nú á hverju ári „myndu ná til tunglsins og aftur til baka væri þeim staflað upp“. Þessa fregn færði blaðið lesendum svo undir stærðarfyrirsögn þar sem hamrað var á þessari fróðlegu staðreynd: „Útsendir reikningar myndu ná til tunglsins og til baka“. En fjórum dögum síðar birti blaðið svo frétt þess efnis að því fari í raun fjarri að reikningarnir næðu til tunglsins og alls ekki báðar leiðir, en hins vegar nái þeir frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Aðra leiðina.
En í síðari fréttinni var hins vegar kominn sökudólgur. Það var bankinn sem klúðraði þessu. Þetta reyndist sko ekki vera frétt Morgunblaðsins heldur Búnaðarbankans. „Skeikaði um nokkur núll í frétt frá Kaupþingi-Búnaðarbanka“ segir í yfirfyrirsögn Morgunblaðsins nokkrum dögum síðar. Og í meginmáli fréttarinnar var haldið áfram með sama hætti:
„Í fréttinni, sem fjallar um rafræna birtingu reikninga frá Símanum um heimabanka, er vitnað í tilkynningu sem Kaupþing-Búnaðarbanki og Síminn sendu frá sér. “Útsendir reikningar á hverju ári vega rúm 60 tonn, og ef seðlarnir yrðu lagðir í eina röð myndu þeir ná til tunglsins og aftur til baka” segir orðrétt í tilkynningunni. Eitthvað hefur bankamönnum brugðist reikningslistin því fullyrðingin stenst alls ekki.“ |
En ef einhver kíkir nú í Morgunblaðið frá föstudeginum 27. júní, þar sem stórfréttin um reikningana sem ná til tunglsins og aftur til baka blasir við á baksíðu, þá kemst hann að því að í fréttinni er ekki minnst á neina tilkynningu frá Kaupþingi-Búnaðarbanka eða nokkrum öðrum. Það segir að vísu snemma í fréttinni að fyrirtækin hafi kynnt „þessa nýju þjónustu í gær“ en þá er það upp talið. Ekki eitt einasta orð um að fréttin sé að þessu leyti einfaldlega fréttatilkynning einhverra fyrirtækja sem Morgunblaðið hafi skellt gagnrýnislaust á baksíðuna. Og fjarri lagi að í þessari frétt hafi verið „vitnað í tilkynningu“ frá Kaupþingi-Búnaðarbanka, eins og þó er fullyrt fjórum dögum síðar að hafi verið gert.
Hlutir eins og þessir eru hins vegar algengir á íslenskum fjölmiðlum. Það er algengt að fréttir séu næstum eins í mismunandi fjölmiðlum. Skýringin er þá ekki sú að fjölmiðlamennirnir steli svo miskunnarlaust hver frá öðrum heldur sú að fyrirtæki og stofnanir hrúga fréttatilkynningum af afrekum sínum og árangri á fjölmiðlana og þar eru þær teknar og iðulega birtar gagnrýnilítið. Rétt eins og baksíðufrétt Morgunblaðsins af tunglreikningunum. Í „fréttinni“ kom fram hversu reikningarnir eru margir á hverju ári, Morgunblaðið hefði hugsanlega getað ímyndað sér hversu stór blöðin eru sem þeir eru ritaðir á – kannski er einhver blaðamaður jafnvel með síma og hefur séð slíkan reikning með eigin augum – og þá væri komið frekar auðvelt reikningsdæmi og varla hefði blaðamönnum þótt líklegt að það væri kílómetri til tunglsins. En blaðið reiknar ekki neitt, það fær bara fréttatilkynningar og birtir þær. Enda fréttatilkynningin komin frá banka sem er sennilega þaulvanur að sýsla með tölur.
Nú má auðvitað segja að þessi villa, eða hvað á að kalla það, skipti svo sem engu máli. Það væri alveg rétt svo langt sem það nær. Þó hún reyndar auki á þá tilfinningu sumra að pappírsflóð nútímans sé geigvænlegt og um að gera að gera nú flest ef ekki allt „rafrænt“, þá hefur hún varla neinar aðrar afleiðingar. Það byrjar enginn að safna reikningum til að hlaða upp úti í garði til að komast svo til tunglsins. Enda hvort sem er of vindasamt til að slíkur stafli yrði nægilega stöðugur. En það má hafa orð á þessu ómerkilega máli því það er dæmigert fyrir vinnubrögð á íslenskum fjölmiðlum. Oftar og oftar blasir við að það er bara eitthvað sagt. Eitthvað sem hljómar vel eða eitthvað sem fréttamaður heldur að ókönnuðu máli að sé satt. Eða næstum því satt. Og það hversu þetta mál er í raun saklaust og ómerkilegt, hefur enga sérstaka þýðingu fyrir menn eða málstað, þá er það kjörið dæmi.
Þó hér hafi fréttir úr Morgunblaðinu orðið fyrir valinu í dæmaskyni, þá fer því fjarri að Morgunblaðið sé síðra dagblað en önnur sem gefin eru út í landinu. Þó blaðinu hafi mjög farið aftur á liðnum árum – einkanlega vegna að því er virðist örvæntingarfullrar viðleitni til „daga ekki uppi“ – þá stendur það öðrum fjölmiðlum enn framar á flestum sviðum, þó því verði ekki neitað að DV hafi töluvert sótt í sig veðrið með fréttaskýringum og viðtölum sem máli skipta. Annað dæmi mætti nefna frá síðustu viku er Fréttablaðið birti tvær fréttir sama daginn af Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu og framámanni hjá Evrópusambandinu. Önnur fréttin var af því Berlusconi hefði beðist afsökunar á ummælum sínum, hin að hann hefði ekki beðist afsökunar. Það voru að vísu fjórar síður á milli þessara frétta en Fréttablaðið hefur ekki enn haft fyrir því að biðja lesendur sína afsökunar á þessum ruglingi og heldur ekki birt tilkynningu þess efnis að það hafi ekki beðist afsökunar. En Morgunblaðið má eiga það að því er ekki haldið úti í öðrum tilgangi en að reka fjölmiðil. Blaðið er ekki í neinni herferð gegn tilteknum stjórnmálaflokki. Morgunblaðið er heldur ekki í herferð fyrir neinu heldur nema harðlínufemínisma og tónlistarhúsi. Meira að segja sjávarútvegsmálin eru orðin minna áhugamál en baráttan við vændið sem Morgunblaðið sér í hverjum bílskúr.