Það er ekki algengt að menn geri sér fyllilega grein fyrir mikilvægi verðsins. Verð á vörum og þjónustu gegnir þýðingarmiklu hlutverki og líklega mætti halda því fram að þáttur verðsins í samfélaginu sé ómetanlegur. Hvaða orðum sem menn vilja koma að mikilvægi verðsins er þó eitt ljóst; samfélagið væri ekki til í svipaðri mynd og það er nú ef ekki væri vegna verðsins. Ef ekki væri verð á vörum og þjónustu væri samfélag manna enn afar frumstætt og lífsgæði lítil. Þetta kann að hljóma einkennilega og kalla á útskýringar, því verð er nokkuð sem fæstir hugsa mikið út í. Menn vita að verðið á tannkremstúpunni er viðráðanlegt og þeir vita að verð tunglferju er utan við þau takmörk sem buddan setur þeim – flestum að minnsta kosti. Menn velta því líka fyrir sér hvort þessi tannkremstúpan eða hin er á hagstæðara verði og menn kaupa þá hagstæðari, en þar með er vangaveltum þeirra um verðið lokið. Þeir velta því sjaldnast fyrir sér hvernig verð túpunnar varð til og hvers vegna það er jafn hátt eða lágt og raun ber vitni. Og menn velta aldrei fyrir sér þýðingu verðsins í samfélaginu í heild og þar með fyrir þá sjálfa.
„Allar þær upplýsingar sem fólgnar eru í verði á vöru og þjónustu á markaðnum, …, verða með öðrum orðum til þess að eins mikið er framleitt af þeim vörum og þeirri þjónustu og fólk þarfnast og nokkur kostur er.“ |
En það sem gerir verðið einmitt eins þýðingarmikið og raun ber vitni er ekki síst sú staðreynd að menn þurfa ekkert að velta öðru fyrir sér en því hvort ein tannkremstúpan er á hagstæðara verði en önnur. Verðið þjónar einmitt fyllilega tilgangi sínum við það eitt að menn eiga þess kost að kaupa eða selja vöru eftir að hafa lagt mat á verðið. Ef neytandi telur tiltekna tannkremstúpu á hagstæðara verði en aðrar túpur þá kaupir hann hana en hinar ekki. Við þessa ákvörðun eignast hann þessa ágætu túpu og unir sáttur við sitt; hann hefur eignast hagstæðustu tannkremstúpu sem völ var á. En það gerist fleira. Skilaboð – bæði sýnileg og ósýnileg – fara í allar áttir í kjölfar kaupanna. Með því að kaupa hagkvæmu túpuna hefur neytandinn veitt mikilvægar upplýsingar sem ásamt öðrum sams konar upplýsingum verða notaðar við að ákveða hvernig verðmæti jarðarinnar verða nýtt til frekari framleiðslu á vörum og þjónustu. Skilaboðin berast framleiðendum tannkremstúpa, en einnig fjölda annarra framleiðenda vöru og þjónustu. Sú staðreynd að þessi tiltekna túpa var keypt en ekki einhver önnur túpa felur í sér að framleiðsla á hagkvæmu túpunni verður aukin á kostnað hinna. Aukin sala á tannkremi umfram aðrar vörur þýðir einnig að framleiðsla tannkrems almennt eykst á kostnað annarra vara. Framleiðsluþættirnir í heiminum, bæði fjármagn og vinnuafl, flytjast þangað sem þörfin fyrir þá er mest og þannig er sífellt verið að framleiða eins hagkvæma samsetningu af vörum og þjónustu og mögulegt er. Allar þær upplýsingar sem fólgnar eru í verði á vöru og þjónustu á markaðnum, sem sagt upplýsingarnar sem markaðshagkerfið miðlar milli manna um allan heim, verða með öðrum orðum til þess að eins mikið er framleitt af þeim vörum og þeirri þjónustu og fólk þarfnast og nokkur kostur er. Þetta er í grunninn ástæða þess að markaðshagkerfi Vesturlanda hafði betur en sósíalíska hagkerfið í Norður-Kóreu, á Kúbu og í Sovétríkjunum sálugu.
Sú staðreynd að markaðshagkerfi Vesturlanda hafði betur en hagkerfi félagshyggjunnar þýðir þó ekki að hagkerfi Vesturlanda sé alfullkomið og að á því séu engir hnökrar. Vegna þess hve þýðingarmikið verðið er til að miðla upplýsingum um hvað skuli framleitt og hvernig er mikilvægt að þær upplýsingar komist til skila með sem skýrustum hætti og án þess að þeim sé spillt. Þrátt fyrir þetta eru menn oft og tíðum reiðubúnir til að skekkja verðmyndun á markaði með ýmsum hætti, líklega vegna þess að þeir gera sér ekki fulla grein fyrir skaðlegum áhrifum þess að brengla skilaboðin sem verðið gefur. Verðlagshömlur af ýmsu tagi, niðurgreiðslur eða tollar eru dæmi um inngrip í verðmyndun á markaði sem leiða af sér verðmætatap. Ástæðan er sú að eftir inngripin veitir verðið ónákvæmar upplýsingar og þeim mun ónákvæmari sem inngripin eru meiri.
Með núverandi gjaldtöku af bílum og bensíni eru skilaboð markaðarins skekkt og Íslendingar hvattir til að verja frítíma sínum utan lands. |
Ekkert markaðshagkerfi er til þar sem ekki eru töluverð inngrip í verðmyndun og þar með töluverð verðmætasóun. Inngripin eru misjafnlega mikil eftir löndum og jafnvel eftir fylkjum eða borgum innan landa. Í Evrópu eru inngripin víða umtalsverð, meðal annars á vinnumarkaði. Afleiðingin er mikið atvinnuleysi og veikburða hagkerfi, en eins og fram kom í fréttum í vikunni hefur Seðlabanki Evrópu lækkað hagvaxtarspá sína og nú stefnir í stöðnun í evrulöndunum á næstunni. Bandaríkin búa ekki við jafn mikil inngrip og mörg lönd Evrópu, en þar er verðmyndun þó alls ekki að fullu frjáls og án inngripa. Sem dæmi má nefna leigumarkaðinn í New York, en hann hefur um áratugaskeið liðið fyrir umfangsmiklar reglur um hámarksleigu og ýmis óbein inngrip. Eins og aðrar reglur um hámarksverð sem settar eru af misskilinni greiðasemi við fátæka, þá bitna reglur um hámarksleigu yfirleitt harðast á þeim. Til skamms tíma litið geta reglurnar hjálpað þeim leigjendum sem hafa þegar húsnæði, en til lengri tíma litið valda reglurnar öllum miklu tjóni. Þær valda skorti á húsnæði þar sem enginn sér ávinning í því að byggja íbúðarhúsnæði til útleigu og þær verða til þess að það húsnæði sem fyrir er nýtist illa og er illa við haldið. Reynt hefur verið að aflétta reglunum í New York, en það hefur ekki tekist enn og litlar líkur eru taldar á að það muni takast á næstunni.
Hér á landi eru einnig nokkur inngrip í verðmyndun á markaði og eru landbúnaðarafurðir eitt skýrasta dæmið um óhagkvæm afskipti af markaðsverði. Ýmsum aðferðum er beitt til að hafa áhrif á verðmyndun á þeim markaði og halda óhagkvæmri framleiðslu gangandi. Annað dæmi um inngrip eru sérstök gjöld sem lögð eru á bíla og eldsneyti. Með þeim er gert dýrara en eðlilegt væri að eiga bíla og nota þá. Með því er dregið úr lífsgæðum fólks, því það kaupir sér verri bíl en það myndi ella gera og notar hann minna en hagkvæmt getur talist. Þetta getur meðal annars birst í því að það flýgur frekar utan þegar það á frí en að ferðast innan lands. Dæmi um óhagkvæm inngrip er líka þegar samkeppnisyfirvöld banna fyrirtækjum að sameinast. Með því er komið í veg fyrir aukna hagkvæmni, en ástæða þess að fyrirtæki vilja sameinast er einmitt sú að þau hafa fengið um það skilaboð í gegnum verð á markaði að þau geti orðið hagkvæmari með sameiningunni. Skilaboðin koma ekki einungis í gegnum verð þeirra vara og þeirrar þjónustu sem fyrirtækin bjóða, heldur líka í gegnum verð á aðföngum, svo sem vinnuafli, húsnæði og tölvum eða öðrum framleiðslutækjum. Allt spilar þetta saman og allt þarf þetta að vera háð frjálsri verðlagningu og frjálsri notkun framleiðsluþáttanna til að nýtingin verði sem best og hagsældin í þjóðfélaginu sem mest.