Þriðjudagur 11. mars 2003

70. tbl. 7. árg.

Lýðskrumarar fullyrða stundum og það hástöfum að á Íslandi búi tvær þjóðir og færist sífellt í sundur. Hingað til hefur Vefþjóðviljinn lagt lítinn trúnað á þessar staðhæfingar enda tekjuskipting á Íslandi jafnari en í nokkru því landi þar sem á annað borð er nokkrum tekjum til að skipta. En nú er blaðið ekki lengur visst. Nú orðið lítur nefnilega æ oftar út fyrir að það sé rétt að á Íslandi búi í raun tvær þjóðir, þó skiptingin sé að vísu ekki eftir efnahag heldur sálarástandi og hugarró. Svo virðist sem skipta megi Íslendingum í tvær þjóðir, að vísu mjög misfjölmennar og misjafnar að öðru leyti einnig. Önnur þjóðin er þá Ingibjörg Gróa Gísladóttir, herráð hennar og nánustu samverkamenn. Hin þjóðin er allir hinir. Að minnsta kosti virðist Ingibjörg þessi heyja lífsbaráttu sína á öðru Íslandi en flestir þeir sem lengi álitu sig samlanda hennar. Hún virðist lifa í öðrum veruleika en flest venjulegt fólk. Og frá henni kemur nú svartagall eins og hraunflaumur. Þó almennt sé ágætt að fara öfugt að á við Bakkabræður þá er það ekki svo í dæmi Ingibjargar Gróu Gísladóttur. Bakkabræður reyndu árangurslaust að bera sólskin inn í eigin bæ. Ingibjörg Gróa Gísladóttir reynir nú af fremsta mætti að bera myrkur inn í annarra manna bæi.

„Samfélag okkar einkennist af valdþreytu stjórnvalda og ótta hinna við að gagnrýna vald þeirra“ segir Ingibjörg Gróa Gísladóttir, stjórnmálamaðurinn sem hiklaust gekk á bak nýgefinna loforða sinna við kjósendur í Reykjavík til þess að svala í senn að því er virðist óendanlegum eigin metnaði og stjórnlausu hatri á tilteknum öðrum stjórnmálaflokki, og þykir á sama tíma aðrir stjórnmálamenn vera „hrokafullir“ og „sjálfmiðaðir“. Það er reyndar með ólíkindum að stjórnmálamaður, sem ekki aðeins gengur gegn slíkum margendurteknum loforðum sínum heldur einnig víkur réttkjörnum formanni eigin flokks frá völdum og skipar sjálfan sig í hans stað, láti sig hafa það að kalla annað fólk „hrokafullt“ og „sjálfmiðað“, en Ingibjörgu Gróu Gísladóttur er ýmislegt til lista lagt umfram annað fólk. Og það er ekki allt búið enn: „Það ríkir ekki heilbrigt andrúmsloft í íslensku samfélagi. Aldrei hefur það blasað eins við okkur og í síðustu viku þegar forsætisráðherra landsins, æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar og sá sem mest völd hefur í íslenskum stjórnmálum, setti allt samfélagið á annan endann með vanhugsuðum orðum sínum og athöfnum. Hann, sem mesta ábyrgð ber á því að viðhalda trú almennings á stjórnsýslu og stjórnmálum, hjó að rótum stjórnkerfisins og fórnaði trúverðugleika þess á altari pólitískra skammtímahagsmuna.“

Svo mælir Ingibjörg Gróa Gísladóttir og er talsvert niðri fyrir. Að vísu útskýrir hún ekki hvernig trúverðugleiki stjórnkerfisins er fyrir bí hvað þá hvernig hoggið er að rótum þess! við það að forsætisráðherra hafi greint frá vissu samtali sínu og stjórnarformanns stórfyrirtækis eins. Og ekkert um það af hverju þau voru vanhugsuð þessi orð sem Ingibjörg Pandóra reiðist svo mjög. Það er með þetta eins og annað sem frá Ingibjörgu Gróu kemur; það er fullyrt einarðri röddu og ef beðið er um útskýringar þá segist hún nú ekki ætla niður á það plan að fara að finna orðum sínum stað í raunveruleikanum. En Ingibjörg Pandóra lifir sem sagt í landi þar sem enginn þorir að gagnrýna ráðamenn og er auðvitað ekki öfundsverð af því lífi. Við hin lifum hins vegar í landi þar sem ákveðnum fjölmiðlum og fréttastofum er markvisst beitt gegn þessum sömu stjórnvöldum. Landi þar sem endurunnar blaðagreinar stjórnarandstöðunnar dynja svo ört á landsmönnum að fjölmargir áhugamenn um þjóðmál geta þulið frasana í svefni sem vöku, rétt eins og maður sem spilar tetris nógu lengi heldur áfram að raða kubbum í móki sem draumi. Þó Ingibjörg Pandóra búi í landi þar sem enginn gagnrýnir nægilega stjórnvöldin sem hún hatar svo mjög, þá búum við hin í landi þar sem pistlahöfundar Samfylkingarinnar hafa látið dæluna ganga um þessi sömu stjórnvöld svo lengi að sumir þeirra eru jafnvel farnir að trúa eigin málflutningi.

Ingibjörg Gróa Gísladóttir heldur því fram að traust til stofnana samfélagsins hafi minnkað en staðreyndir tala öðru máli. Samkvæmt nýrri könnun Gallup hefur traust til stofnana samfélagsins farið mjög vaxandi frá 1997. Traust til lögreglu hefur vaxið um 9%, traust til Alþingis um 12%, traust til þjóðkirkjunnar um 25% og traust til dómskerfisins um 19%.

En þó á fundunum í kaffistofu Máls & menningar titri flestir af heift og jafnvel ótta í bland við heiftina en sá kokteill getur orðið álíka áhrifamikill og fjórfaldur brennivín í bananalíkjör þá kannast venjulegir Íslendingar ekki við heimsmynd Ingibjargar Gróu Gísladóttur. Þrátt fyrir stöðugan áróður stjórnarandstöðunnar og pistlahöfunda hennar, fólks sem stöðugt reynir að grafa undan trausti landsmanna á yfirvöldum og stjórnsýslunni, þá er það svo að Íslendingar bera sífellt meira traust til hins opinbera. Það staðfesta kannanir eftir kannanir, ár eftir ár. Og erlendar stofnanir telja að spilling sé hvergi í heiminum minni en á Íslandi og fjölmiðlar hvergi frjálsari en á því landi þar sem Ingibjörg Gróa Gísladóttir og vinir hennar skjálfa af ótta.

Eins og áður hefur verið bent á, þá getur Ingibjörg Gróa auðvitað gefið þá skýringu á baráttuaðferðum sínum að hún hafi þannig lagað engin málefnaleg rök til að ráðast að stjórnvöldum og verði þess vegna að reyna þau ómálefnalegu. En jafnvel slíkar skýringar duga varla til að útskýra nýjasta stóryrðaflauminn. Kannski má reyna að ímynda sér að henni hafi einfaldlega orðið svo mikið um skoðanakannanir síðustu viku sem gáfu til kynna að heldur en ekki væri tekið að fjara undan framboði hennar. Ef til vill hefur hún óttast að gróusagnagerðin og tortryggnisáningin myndi ekki skila ætluðum árangri og hún yrði að kveðja þann framadraum sem hefur setið huga hennar svo lengi. Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða, en jafnvel þó hún sé í raun að kveðja framadraum sinn þá þarf hún að minnsta kosti ekki að kveðja hann með þessum leiðinlega ofsa. Það er óþarfi að reyna að bera myrkrið í fötum inn í hús samlanda sinna. Það er svo margt fallegt sem hægt er að segja, og ef eigin smekkvísi hrekkur ekki til þá er alltaf hægt að leita í smiðjur þeirra sem jákvæð lífssýn er tamari. Hver myndi til dæmis ekki hafa sóma af því að kveðja draum sinn með orðum Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi? En Pandóran okkar getur kannski ekki tekið sér orð nokkurs Davíðs í munn?

Þó særðir fuglar syngi dátt
er söngur þeirra kvein.
Þeir finna til sem flugu hátt
og féllu niður á stein.
Og yfir djúpi dimmir fljótt,
er dagur burtu flýr.
Ég er hin þreytta þögla nótt
en þú varst ævintýr.