Miðvikudagur 12. mars 2003

71. tbl. 7. árg.

Það væri auðvitað á allan hátt ómaklegt gagnvart annarri þeirra að líkja þeim saman, Birgittu Haukdal söngkonu Írafárs og Ingibjörgu Gróu Gísladóttur talsmanni írafárs. Önnur er glaðlynd og jákvæð og leggur sig greinilega fram um að horfa á jákvæða hluta tilverunnar. Hin er slík andstaða hennar að það mætti stundum ímynda sér að hún hreinlega legði sig fram um að ýkja sínar neikvæðu hliðar, svona til að greina sig enn frekar frá henni. En að þessu frátöldu þá má segja að væntanlegt eurovision-lag Ríkisútvarpsins og Samfylkingin eigi sitthvað sameiginlegt.

Er þá ekki sérstaklega átt við að það var fenginn forsöngvari, frægur af öðrum vettvangi, í þeirri von að hvernig sem tónar og texti eru nú, þá muni frægð söngvarans tryggja þá athygli og það fylgi sem allt snýst um. Nei, merkilegri er sú staðreynd að þegar bæði er búið að velja lag og kynna framboð þá kemur það sama í ljós: Það, sem í raun er frá höfundi komið, er klént. Annað, það sem er gegnumgangandi, viðlag bæði framboðs og lags, það reynist þegar betur er að gáð vera hugverk erlends manns, Marx að nafni.

Gefðu mér allt
kjóstu mig strax
allt lífið ég beðið hef.
Atkvæði eitt
öllu fær breytt
ef aðeins þú gleymir þér og
opnar fyrir mér.

Það á víst að hnika einhverjum tónum til, eða breyta útsetningu lítillega, svo skyldleiki Segðu mér allt! við Marx verði ekki svo áberandi að það hindri fólk í að styðja lagið þegar úrslitastundin rennur upp í maí. Og innan Samfylkingarinnar er nú reynt að hnika áherslum og útfærslu Kjóstu mig strax! svo ekki sjáist of greinilega hversu rík áhrif Marx hefur í raun á hugsunina þar á bæ. Innan Samfylkingarinnar minnist enginn á Marx lengur. Þar er enginn marxisti og bara hlægilegt að hugsa um slíkt, hvað þá meir. Kaldastríðshugsunarháttur. Hægri og vinstri eru sko úrelt. Nú eru sko samræðustjórnmál tekin við. En þegar nýja útsetningin er hreinsuð frá en raunveruleikinn skilinn eftir, þá blasir það við að Samfylkingarmenn hafa lært ný orð og nýja frasa en ekki að hugsa upp á nýtt. Hún kann frasana sína, en skilur þá ekki. Hugur fylgir að minnsta kosti ekki máli. Það er engin tilviljun að Samfylkingin hefur ætíð beitt sér gegn skattalækkunum og gegn einkavæðingu. Hún hefur krafist aukinna reglna og aukins stjórnlyndis. Þó hún stigi nú á svið og láti skyndilega eins og hún sé að flytja nýtt og ferskt frumsamið lag er staðreyndin sú að það er bara búið að fá fagmenn til að útsetja gamla afturhaldsglamrið upp á nýtt og hrúga propsi og skrani allt í kring.

Ef Birgitta Haukdal verður sigursæl í sinni keppni í maí þá verður það sjálfsagt dýrt fyrir íslenska skattgreiðendur að því leyti að þeir verða látnir halda keppnina að ári og jafnvel byggja hús undir hana. En að öðru leyti mætti samgleðjast Birgittu. Ef Ingibjörg Gróa Gísladóttir og félagar hennar, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason og þeir, verða hins vegar sigursæl í vor, þá verður lítil ástæða fyrir borgarana að gleðjast. En dýr mun sá sigur reynast, maður lifandi.