Mánudagur 13. janúar 2003

13. tbl. 7. árg.

S

Það er ekki liðinn hálfur mánuður síðan formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir að auðvitað væri hann sjálfur og enginn annar leiðtogi og forsætisráðherraefni flokksins. Annað kæmi vitaskuld ekki til greina. En maður ætti aldrei að segja aldrei, amígó!

amfylkingin hefur ákveðið…, Samfylkingin hefur ákveðið…, Samfylkingin hefur ákveðið… – glumdi úr viðtækjum landsmanna allan gærdaginn. Samfylkingin hafði nefnilega tekið ákvörðun um að leiðtogi sinn og forsætisráðherraefni við komandi alþingiskosningar yrði alls ekki Össur Skarphéðinsson formaður flokksins heldur Ingibjörg Pandóra Gísladóttir, borgarfulltrúi og væntanlegur frambjóðandi í 5. sæti í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra. Og svo var haldinn blaðamannafundur á hóteli niðrí bæ til að tryggja að enginn missti nú af því sem „Samfylkingin hefur ákveðið“.

Ach so, en hvernig ætli „Samfylkingin“ hafi ákveðið þetta? Og, það sem ekki er síður forvitnilegt, hvernig ætli hverjum fréttamanninum á fætur öðrum takist að fjalla um þetta furðumál án þess að spyrja þessarar augljósu spurningar? Það var nú ekkert lítið gert úr því fyrir stuttu þegar Samfylkingarfélögum var gefinn kostur á að velja sér leiðtoga. Það var nú bara allsherjarkosning þar sem hver einasti Samfylkingarfélagi fékk sendan atkvæðaseðil heim og gat svo valið milli frambjóðenda. Og atkvæði flokksmanna féllu þannig að einn af þingmönnum flokksins, Össur Skarphéðinsson, var kjörinn formaður Samfylkingarinnar með 3363 atkvæðum gegn 956 atkvæðum mótframbjóðanda síns. Á síðasta landsfundi var Össur svo einn í kjöri til formanns. Mönnum getur þótt hvað sem er um leiðtogahæfileika hans, stjórnmálaskoðanir eða hvað sem er, en það breytir ekki því að Össur Skarphéðinsson er eins rétt kjörinn formaður Samfylkingarinnar og frekast má vera. Og nú er skyndilega tilkynnt að það sé búið að ákveða að þrátt fyrir þetta muni tiltekinn annar flokksmaður vera leiðtogi flokksins og forsætisráðherraefni hans! Á mæltu máli: vera í raun formaður flokksins.

Og svo er bara sagt að „Samfylkingin“ hafi ákveðið þetta og það tyggja svokallaðir fréttamenn upp gagnrýnilaust. En með leyfi að spyrja, hvaða „Samfylking“ ákvað þetta og hvernig? Hvernig í ósköpunum fara fréttamenn eiginlega að því að láta eins og þeir sjái ekkert athugavert við þetta allt saman? Þarf að útskýra þetta fyrir þeim á barnamáli? Gott og vel. Embættismenn Samfylkingarinnar eru kosnir á landsfundi, æðstu samkomu flokksins, samkvæmt ákveðnum reglum sem greindar eru í lögum hans. Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar eru æðstu embættismenn hennar formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og formaður framkvæmdastjórnar. Það er svo auðvitað augljóst hver úr þessum hópi er sá eini sem kemst nálægt því að vera pólitískur leiðtogi flokksins. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að það sé hægt að breyta formannskjöri eftirá með því að búa til nýtt embætti, æðra formanninum, án þess einu sinni að spyrja nokkra einustu samkomu flokksmanna álits. Allir hljóta að sjá að titill embættisins skiptir ekki máli, aðalatriðið er valdsvið og hlutverk þess. Ef hið nýja embætti er valdameira en embætti formanns þá skipir engu hvort það er kallað „yfirformaður“, „svakahöfðingi“, „pólitískur leiðtogi“ eða „megingúrú“, niðurstaðan er alltaf sú sama: Það er verið að fara á svig við lög og samþykktir flokksins. Og flokksmönnum og öðrum landsmönnum er ekki einu sinni sagt hver beri ábyrgð á því. Það er bara sagt að „Samfylkingin hafi ákveðið“ þetta! Já og tekið fram í leiðinni að jafnframt sé „ákveðið“ að áðurnefnd Ingibjörg skipi 5. sæti framboðslistans í öðru kjördæma höfuðborgarinnar, og ekki minnst aukateknu orði á að samkvæmt reglum flokksins á að velja listann á félagsfundi en ekki blaðamannafundi.

Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar hefur landsfundur æðsta vald í málefnum flokksins og kýs henni forystu. Samkvæmt grein 2.2 í lögum flokksins fer flokksstjórn „á milli landsfunda með það vald sem ella er í höndum landsfundar“ og kannast nokkur við að flokksstjórn Samfylkingarinnar hafi verið spurð álits á því sem „Samfylkingin hefur ákveðið“ upp á síðkastið? Löglega kjörinn formaður er settur af og í staðinn búinn til nýr yfirformaður og æðsta vald í málefnum flokksins er ekki einu sinni spurt. Og fréttamenn senda það bara út eins og hver önnur sannindi að „Samfylkingin“ hafi ákveðið þetta! Enginn spyr hvaðan mönnum komi heimild til að gera einn tiltekinnn flokksmann æðri þeim formanni sem landsfundur Samfylkingarinnar – og þar áður yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda í allsherjarkosningu flokksmanna – hefur kosið. Enginn spyr neins sem gæti varpað nokkrum skugga á glansmyndina, allt er sent út eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Hvernig halda menn að fjölmiðlamenn létu ef svona lagað gerðist innan einhvers annars stjórnmálaflokks? Ef boðaður yrði blaðamannafundur á Hafnarkránni og þar tilkynnt að „Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákveðið“ að þrátt fyrir að landsfundur hefði kosið Davíð Oddsson sem formann flokksins þá yrði Katrín Fjeldsted leiðtogi flokksins í kosningunum. Og hvorki landsfundur, flokksráð, fulltrúaráð né miðstjórn hefðu samþykkt þetta en það hefði hins vegar verið hringt í ýmsa ónafngreinda menn og þeir verið alveg sáttir. Dettur einhverjum í hug að fréttamenn myndu senda það út með sama gagnrýnileysinu og þeir snúa alltaf að Samfylkingunni? Já og hver getur ekki gert sér í hugarlund allar upphrópanirnar um „flokksræði“, „einræði“ og „ólýðræðisleg vinnubrögð“ sem þetta myndi kalla á?

Já og hvað ætli menn segðu ef rétt kjörinn formaður Samfylkingarinnar væri kona en nýi yfirformaðurinn væri karl? Ja þá myndi nú undir taka í fjöllunum! Kona kosin formaður á landsfundi en karlmanni troðið yfir hana utan fundar og það án þess að nokkur stofnun flokksins leggi blessun sína yfir það! Ætli þá myndi nú ekki heyrast hljóð úr mörgum hornum? Ætli þá myndu ekki flestir átta sig á hvílík fásinna þetta er? Meira að segja fréttamenn myndu þá átta sig á því að þetta gengur einfaldlega ekki upp.