„Í ræðu sinni fór Össur yfir tilurð Samfylkingarinnar og þær væntingar sem samfylkingarsinnar bera til hinnar nýju hreyfingar. Össur sagði m.a. að í kosningunum þann 8. maí væri í fyrsta skipti möguleiki á því að kona, og það vinstri sinnuð kona, Margrét Frímannsdóttir, gæti orðið forsætisráðherra Íslands.“ |
– Frétt á heimasíðu Samfylkingarinnar um fund á vegum flokksins á Selfossi 21. apríl 1999. |
„Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að Samfylkingin, og ég með pínulitlum hætti, sé hér að brjóta í blað því þetta er í fyrsta sinn sem stjórnmálaflokkur býður upp á konu sem forsætisráðherraefni.“ |
– Össur Skarphéðinsson „formaður“ Samfylkingarinnar á Stöð 2 12. janúar 2003. |
Já þær eru fljótar að gleymast þegar það hentar. Margrét Frímannsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Halldórsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir. Bauð ekki Kvennalistinn annars fram til þings árin 1983, 1987, 1991 og 1995? Tóku Kvennalistakonur jafnvel ekki þátt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum árið 1987 og voru jafnlíklegar og hver annar til að leiða ríkisstjórn? Fór ekki fylgi þeirra yfir 30% í einhverri skoðanakönnun, svona eins og hjá Samfylkingunni rétt í þessu? Var ekki Þjóðvaki með rífandi fylgi um áramótin fyrir kosningarnar 1995, svona eins og Samfylkingin rétt í þessu, og allt eins líklegt að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður hans, yrði í forsæti nýrrar ríkisstjórnar?
Og svo er það Margrét Frímannsdóttir. Nú er hún ekki lengur varamaður formanns Samfylkingarinnar eins og flokksmenn kusu hana til heldur varamaður einhvers líffræðings á Vesturgötunni. Því til viðbótar hefur líffræðingurinn upplýst að hún telst ekki lengur með þeim konum sem boðið hefur verið upp á sem forsætisráðherraefni.