Sveinn Agnarsson hagfræðingur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fékk um margt athyglisverðar niðurstöður í rannsókn sem hann gerði á skilvirkni grunnskóla í Reykjavík. Niðurstöðurnar eru ekki athyglisverðar vegna þess að þær séu einsdæmi og að aldrei hafi nokkuð sambærilegt fengist áður þegar lagt er mat á menntun og skólakerfi. Þær eru hins vegar athyglisverðar vegna þess að hér á landi – og víðar ef út í það er farið – hefur verið litið svo á að því meira fé sem varið er til menntunar þeim mun betri verði menntunin. Á hinum pólitíska vettvangi og einnig hjá hagsmunaaðilum í menntakerfinu hefur þess vegna verið barist fyrir því að „auka menntun“ með því að auka fjárútlát til menntunar. Og það er eins og um svo margt annað, þessi útgjöld eiga að koma frá hinu opinbera, en þó gleymist oft að geta þess um leið að slíkar kröfur hafa í för með sér hærri skattgreiðslur.
„[Sveinn Agnarsson] komst að því að í óskilvirkustu grunnskólunum voru fleiri réttindakennarar en í hinum skólunum.“ |
Ein af niðurstöðum Sveins er að þegar bornir séu saman skilvirkustu og óskilvirkustu skólarnir þá komi ekki fram að mikill munur sé á kostnaði á hvern nemanda. Bæði skilvirkustu og óskilvirkustu skólarnir voru yfir meðallagi í kostnaði á nemanda. Þessi niðurstaða styður því ekki þá kröfu að auka beri útgjöld til menntamála. Hún styður ekki einu sinni þá kröfu að útgjöldum skuli haldið óbreyttum, miklu frekar má draga þá ályktun að svigrúm sé til sparnaðar að óbreyttum árangri. Sparnaður er þrátt fyrir þetta nokkuð sem ekki á upp á pallborðið í menntakerfinu. Önnur af niðurstöðum Sveins er að fjöldi nemenda í bekk skipti ekki verulegu máli um árangur nemendanna, en um fjölda í bekk var meðal annars fjallað hér fyrir skömmu. Þá komst Sveinn að því að meðalmenntun foreldra í þeim skólum sem rannsakaðir voru skýrði frekar árangur nemendanna en það fé sem skólarnir fengu til að mennta nemendurna.
Margt sem tengist menntun æskulýðs landsins – og raunar líka þeirra sem eldri eru og lokið hafa grunnnámi – er fast í kreddum vegna fordóma sem myndast hafa í kjölfar áratugalangrar baráttu fyrir tiltekinni gerð skólakerfis, þessu ríkisrekna. Ríkisrekna skólakerfið er „ókeypis“ ef marka má vinstri menn, sem aldrei hafa viljað sætta sig við að fólk greiði fyrir menntun sína. Nú vilja þeir fullkomna verkið og sætta ekki lengur við að greiða hluta af þeim kostnaði sem hlýst af vist barna þeirra á dagheimilum, eins og sjá má á kosningastefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Allt á að vera „ókeypis“ og hvergi má spara. Það má ekki einu sinni nefna kostnað þegar menntun er annars vegar, því þá eru menn á móti menntun og sennilega á móti ungviðinu líka. Afleiðingin af þessu getur aðeins orðið ein; menntun verður miklu dýrari en hún þyrfti að vera.
Þegar ekkert kostnaðaraðhald er, vegna þess að sá sem nýtir þjónustuna greiðir ekkert fyrir hana, verða engar eðlilegar hömlur á kostnaðinum og hann fer óhjákvæmilega úr böndum. Þetta er nokkuð sem öllum – jafnvel vinstri mönnum – þætti augljóst um flesta þjónustu. Þegar kemur að „velferðarkerfinu“ má hins vegar ekki nefna þetta voðalega orð, kostnað, því þar má ekkert kosta nokkurn mann. Nema að vísu skattgreiðandann, en hans er aldrei getið. Setjum nú sem svo að ríkið greiddi alla matvöru fólks, sem mætti rökstyðja á þeim forsendum að matvara er brýn nauðsyn og ekki ásættanlegt að nokkur sé án nauðsynlegra vista. Gerum einnig ráð fyrir að vegna hins mikla hlutverks sem matvöruverslanir gegna í mannlífinu þá eigi þær að vera í eigu hins opinbera. Starfsmenn matvöruverslana væru þá ríkisstarfsmenn og þeir sem kæmu í verslanirnar þyrftu ekkert að hafa með sér annað en íslenskt vegabréf og þá gætu þeir gengið klyfjaðir út án þess að greiða krónu. Þar sem þeir greiddu hvort eð er ekkert fyrir þjónustuna væri lítið sem héldi aftur af neytendum að krefjast þess að í verslununum væri eingöngu dýr hágæðamatvara, en ódýrari vörur hyrfu úr hillunum. Þetta skipti starfsmenn engu máli, enda hefðu hagstæð innkaup ekkert að segja um hag þeirra. Og neytendurnir myndu einnig krefjast þess að þjónustan yrði fyrsta flokks, þannig að starfsmönnum yrði fjölgað og menntun þeirra efld. Líklega yrði gerð skýlaus krafa um að matvæla- og næringarfræðingar stæðu um alla verslun og leiðbeindu fólki um vöruval. Kostnaðurinn við að koma matvöru til almennings yrði vitaskuld ekkert svipaður því sem hann er nú og rekstur matvörukerfis ríkisins væri að sliga skattgreiðendur. Enginn þyrði þó að rísa gegn þessu kerfi, því matur er mannsins megin. Þeir sem orðuðu breytingar yrðu óðara gerðir að talsmönnum hungurvofunnar.
Af því hér var nefnt að í matvöruverslunum ríkisins yrði starfandi mikið af hámenntuðu faglærðu fólki til að tryggja að næringarþörf landsmanna yrði uppfyllt með sem bestum hætti, má að lokum nefna enn eina af niðurstöðum Sveins Agnarssonar í könnun á grunnskólum í Reykjavík. Hann komst að því að í óskilvirkustu grunnskólunum voru fleiri réttindakennarar en í hinum skólunum. Það hefur löngum verið mikið baráttumál að allir sem kenni börnum hafi tiltekin kennsluréttindi og þetta hefur jafnvel gengið svo langt að hæfir kennarar hafa orðið að víkja fyrir óhæfum, aðeins vegna þess að hinir hæfu höfðu ekki einhver tiltekin réttindi frá ríkinu. Og þess hefur jafnvel verið krafist að þeir sem ekki hafi aflað sér þessara réttinda skuli ekki fá að kalla sig kennara, en verði að heita leiðbeinendur. Að fenginni þessari niðurstöðu á árangri faglærðra og ófaglærðra kennara í grunnskólum Reykjavíkur, skyldi þessum kröfum þá linna? Líklega er óhætt að spá því að svo verði ekki. Kreddurnar verða að hafa sinn gang.