Fimmtudagur 17. október 2002

290. tbl. 6. árg.

FERDALAGHvernig væri að stofna ferðaskrifstofu á vegum ríkisins fyrir starfsmenn í jafnréttisiðnaði? Er ekki eðlilegt að ríkið útvegi samtökunum eins og Konum gegn klámi og Bríeti, félagi ungra femínista, nokkra farseðla á ári? Já hvernig væri það? Fráleitt? Galið? Eitthvað sem engum dytti í hug? Ja nema kannski Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Reyndar er Kolbrún þegar búin að leggja fram tillögu til þingsályktunar um akkúrat þetta. Í tillögunni, sem Þuríður Bachman, leggur einnig nafn sitt við segir m.a.: „Stofnaður verði sjóður með lið á fjárlögum í þeim tilgangi að styrkja hvers konar starf félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. Hluta sjóðsins verði varið til þess að tryggja þátttöku sömu hópa í alþjóðlegu starfi.“

Já þessi ferðaskrifstofa á ekki bara að vera fyrir Konur gegn klámi heldur „hvers konar“ starfsemi sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. En það er ekki nóg með að tillagan sé eins og hún er heldur fylgir henni greinargerð þar sem í raun er úrskýrt með ágætum hvers vegna ríkið á ekki að skipta sér af starfsemi frjálsra félagasamtaka, hópa og einstaklinga.

Í greinargerðinni segir m.a.: „Starfsemi frjálsra félagasamtaka er einn af hornsteinum lýðræðisins. Þau starfa oft í bein um tengslum við grasrótina og eru í mun betri aðstöðu en stjórnvöld til þess að bregðast vafningalaust við nýjum aðstæðum og skilgreina þarfir og skoðanir almennra borgara. Þau koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum sem koma stjórnvöldum að gagni og verka þannig sem mótvægi við stjórnkerfi sem oft er þungt og seinvirkt.“

Þetta er prýðileg ábending frá Kolbrúnu og Þuríði. Frjáls félagasamtök eru afar mikilvæg lýðræðinu og jafnvel vandséð hvernig lýðræðið virkaði án þeirra. Frjáls samtök borganna geta leyst mál með hraðari og betri hætti en svifaseint ríkisbáknið. En félagasamtök eru einmitt frjáls af því að þau eru ekki á framfæri eða undir verndarvæng ríkisins. Því miður hefur orðið ákveðin tilhneiging til þess á síðari árum að alls kyns samtök hafa sogið sig á ríkisspenann og fá þaðan alla sína næringu. Þetta á ekki síst við um ýmis svonefnd umhverfisverndarsamtök sem gert hafa „samning“ við umhverfisráðuneytið um að vera í fjárhagslegu fóstri ráðuneytisins. Er ekki útséð um alla vitræna gagnrýni frá slíkum ósjálfbjarga félagsskap?

Engu að síður vilja Kolbrún og Þuríður að þeir fáu einstaklingar sem starfa að jafnréttismálum og eru ekki þegar á flakki um heiminn á kostnað almennings sem jafnréttisstýrur, starfsmenn á skrifstofu jafnréttismála, starfsmenn jafnréttisráðs eða karlanefndar jafnréttisráðs, jafnréttisnefndarmenn eða jafnréttisfulltrúar fái líka sína farseðla á kostnað okkar allra.