Föstudagur 4. október 2002

277. tbl. 6. árg.
Góðir aðstoðarmenn eru gulls ígildi.

Ýmsar spurningar hafa eðlilega vaknað hjá lesendum eftir að Vefþjóðviljinn birti sparnaðartillögur sínar í gær. Meðal þess sem lesendur hafa haft áhuga á er hvers vegna lagt er til að sparað sé í yfirstjórn fjármálaráðuneytisins með því að fækka aðstoðarmönnum ráðherra. Þeim mun forvitnilegri þótti tillagan vegna þess að ekki er gert ráð fyrir samsvarandi sparnaði í öðrum ráðuneytum.

Því er til að svara að góðar hugmyndir um sparnað liggja ekki á lausu og jafnvel þótt þær finnist er ekki er víst að þær njóti skilnings á æðstu stöðum. Því var það mikið ánægjuefni að rekast á eina slíka tillögu frá manninum sem hefur hvað mest að segja um fjármál ríkisins um þessar mundir, sjálfum fjármálaráðherranum. Ekki skemmir það fyrir að í ræðunni þar sem tillagan var gerð þrumar hann yfir fyrrum fjármálaráðherra og núverandi forseta lýðveldisins.

Í ádrepunni sem flutt var á Alþingi árið 1988 sagði Geir H. Haarde: „Allir vita að nauðsynlegt getur verið að hækka skatta og auðvitað verður að standa undir sameiginlegum útgjöldum með sköttum. En það er hrein blekking að þeir milljarðar sem nú á að leggja á þjóðina í nýjum sköttum beinist eitthvað sérstaklega að hátekju- og eignafólki. Allt er þetta einn ómerkilegur blekkingarvefur og kemur engum á óvart þegar formaður Alþýðubandalagsins á í hlut. Það skortir ekki háleit markmið í fjárlagafrumvarps hæstvirts ráðherra, þar segir m.a. að dregið verði úr starfsmannafjölda hjá ríkinu um 2,5% á ári í nokkur ár. Ég skal ekki gera ágreining um það markmið en skyldi það vera vísbending um það hver hugur fylgir máli að alþýðubandalagsráðherrarnir þrír hafa þegar ráðið sér fimm persónulega aðstoðarmenn.“

Já seisei. Þrír ráðherrar með samtals fimm aðstoðarmenn. Ljótt var það. Og því þótti Vefþjóðviljanum við hæfi þegar sparnaðartillögur voru gerðar að þessi hvatning Geirs um að ráðherrar hafi aðeins einn persónulegan aðstoðarmann hver fengi að fljóta með. En hann hefur einmitt tvo slíka á sínum snærum.