Hvorki einstakir þingmenn úr þingliði ríkisstjórnarflokkanna né stjórnarandstæðingar virðast gera stórkostlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga næsta árs. Og það má vissulega segja að ríkissjóður sé á nokkuð lygnum sjó eftir hina miklu tekju- og útgjaldaaukningu síðustu ára. En það má líka velta því upp hvort ekki sé fyrst hætta á ferðum þegar þingmenn eru allir sem einn ánægðir með frumvarpið. Hafa allir fengið allt?
Þegar haft er í huga að árið 1997 voru ríkisútgjöld 175 milljarðar króna (á verðlagi ársins 2001) en stefna í 253 milljarða króna á næsta ári er ekki að undra að jafnvel mestu eyðsluklær eigi bágt með að gagnrýna Alþingi fyrir að vera nískt á fé almennings. Þetta er 45% útgjaldaaukning á þeim árum sem Geir H. Haarde hefur vermt stól fjármálaráðherra. Er þetta vonandi einsdæmi í Íslandssögunni og verður ekki endurtekið.
En hvar á að spara? Það er eðlilegt að þeir sem gagnrýna aukin útgjöld svari því. Á liðnum árum hafa komið fram ýmsar hugmyndir um sparnað hjá hinu opinbera. Meðal þeirra má nefna hugmyndir Viðskiptablaðsins, Verslunarráðs Íslands og Heimdallar. Við lestur á þessum tillögum er ljóst að ekki næst árangur í þessa veru án þess að fækka þeim verkefnum sem ríkið hefur á sinni könnu. „Hagræðing“, „nútímavæðing“ og „gæðastjórnun“ duga skammt ef menn vilja ná útgjöldunum niður sem einhverju skiptir.
Vefþjóðviljinn vill því leyfa sér að stinga upp á nokkrum útgjaldaliðum sem ríkið gæti verið án. Þetta eru vissulega aðeins nokkrir af mörgum. Samtals nema þeir aðeins 30 milljörðum króna sem er ekki helmingurinn af því sem útgjöldin hafa aukist í tíð fjármálaráðherrans okkar. Þetta myndi þó duga til að lækka tekjuskatt einstaklinga úr 38% í 24% miðað við óbreytt skattleysismörk. Við lækkun tekjuskattsins er gert ráð fyrir hlutfallslega auknum tekjum ríkisins til að vega á móti mörkuðum tekjustofnum á borð við iðnaðarmálagjald og flutningsjöfnunargjald. Lækkun skatthlutfalla breikkar að öllu jöfnu skattstofna.
Ekki er snert við heilbrigðis- og menntamálum í þessum tillögum. Eini sparnaðurinn í velferðarkerfinu sem stungið er upp á er að fæðingarorlof til foreldra verði 70 þúsund krónur á mánuði (eins og það var áður en karlarnir komust í það) í níu mánuði og foreldrar geti ráðstafað því að vild í stað þess að það sé tekjutengt og foreldrum skipað fyrir um skiptingu þess.