Þriðjudagur 9. maí 2006

129. tbl. 10. árg.
Ég hlýt að mótmæla vinnubrögðum Kastljóssins. Í fyrsta lagi að fjallað sé með svo léttvægum hætti um atvik sem eru meðal þeirra alvarlegustu í lífi hvers manns sem í því lendir, þ.e.a.s. að vera sakaður um brot gegn refsilögum. Ómögulegt er að ætla að verjast ásökunum og ákæru í svo margslungnu máli í stuttum sjónvarpsþætti. Ég á rétt á því að um slík mál sé aðeins fjallað fyrir réttum dómstólum og þá samkvæmt þeim lögum og reglum sem um það gilda.
– Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, aðaleiganda DV og Fréttablaðsins, í yfirlýsingu vegna umfjöllunar Kastljóss Ríkissjónvarpsins um svonefnd Baugsmál.

Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs hefur rétt fyrir sér að það er ekki heppilegt að fjölmiðlar setji upp eigin dómstól til að fjalla um mál sem eru þegar fyrir dómi eða á leiðinni þangað. Það er alveg nóg að fjölmiðlamenn telji sig fjórða valdið og engin ástæða til að þeir taki þriðja valdið að sér. Það er hárrétt hjá forstjóra Baugs að sakborningar eiga ekki að þurfa að verjast ásökunum í fjölmiðlum á sama tíma og mál þeirra eru fyrir dómi. Það er ómöguleg staða fyrir þá og einnig afleitt fyrir rannsókn máls og ákæruvaldið. Umfjöllun Kastljóssins í gærkvöldi um þær sakir sem bornar eru á forsvarsmenn Baugs var feilspor sem vonandi verður ekki endurtekið.

Það sem vekur hins vegar furðu í yfirlýsingu Jóns Ásgeirs er einmitt þetta atriði sem hann hefur svo sannarlega rétt fyrir sér um. Undanfarin ár hefur Baugur gefið út tvö dagblöð, Fréttablaðið og DV. Það þarf ekki að rekja það í löngu máli með stóryrðum hvernig DV hefur tekið á mörgum málum sem eru fyrir dómi eða í rannsókn lögreglu. Enginn íslenskur fjölmiðill hefur gengið svo hart fram í umfjöllun sinni um mál sem eru til rannsóknar eða fyrir dómi. Og enginn íslenskur fjölmiðill hefur gert það á jafn óvandaðan og tillitslausan hátt. Aðaleigandi DV segir í yfirlýsingu sinni „Ég á rétt á því að um slík mál sé aðeins fjallað fyrir réttum dómstólum…“ og mótmælir því harðlega að fjallað sé um málið í fjölmiðlum. En er það rétt skilið að þessi mikilvæga regla gildi aðeins fyrir hann sjálfan?

Hvað er Jón Ásgeir búinn að brjóta þennan rétt á mörgum með því að fjármagna og standa að útgáfu DV og Fréttablaðsins? Já Fréttablaðið er ekki undanskilið því allar verstu forsíður DV hafa verið auglýstar í systurblaðinu.

Það er makalaust að aðaleigandi DV skuli gefa slíka yfirlýsingu aðeins nokkrum dögum eftir að ritstjóri DV þurfti að biðjast afsökunar á röngum sakarburði á manneskju sem tengdist umfjöllunarefni blaðsins ekki á nokkurn hátt. Og ritstjórinn tók það sérstaklega fram að DV muni þó halda sínu striki og halda áfram að fjalla um mál með þessum hætti. Jón Ásgeir ætlar að halda áfram útgáfu DV en krefst þess um leið að aðrir fjölmiðlar fjalli ekki um sakarefni í Baugsmálum.

„Ég á rétt á því…“