Tímaritið The Economist segir í nýjasta tölublaði sínu frá rannsókn OECD á áhrifum reglna um vörur og vinnumarkað á framleiðni í hagkerfinu. Bandaríkin og lönd Evrópu eru borin saman og í ljós kemur að vegna meira regluverks í Evrópu séu ný fyrirtæki yfirleitt minni í Bandaríkjunum, en að þau vaxi hraðar. Þau bandarísku fyrirtæki sem lifa af tvöfaldi að meðaltali starfsmannafjölda sinn á fyrstu tveimur árum starfseminnar, en aukningin hjá nýjum fyrirtækjum í Evrópu sé aðeins 10-20%. Í rannsókninni koma fram sterkar vísbendingar um að íþyngjandi regluverk dragi úr framleiðni. Og helsta vandamálið í Evrópu er að með miklum reglugerðum um vörur og vinnuvernd dregur úr ráðningum á nýju starfsfólki.
Þær greinar atvinnulífsins sem virðast fara verst út úr reglusetningagleðinni eru einmitt þær greinar sem allir segjast vilja styðja við, þ.e. þær greinar þar sem tækniframfarir eru mestar. Þetta mun vera hluti skýringarinnar á því að Bandaríkin standa betur en Evrópa í þróun hátækniiðnaðar og fjárfestingum í upplýsingatækni. The Economist segir að lægri upphafskostnaður og ekki eins strangar reglur um vinnuvernd geri frumkvöðlum í Bandaríkjunum auðveldara fyrir að prófa sig áfram með litlum fyrirtækjum, kanna markaðsaðstæður og stækka. Í Evrópu geri hár kostnaður við að breyta fjölda starfsmanna þetta erfiðara. Þegar tæknin breytist hratt hafi þetta enn meiri áhrif en annars væri og hindranirnar sem lagðar séu í götu nýsköpunar í Evrópu verði hindranir á hagvöxt.