Íslandspóstur hf., hið nýja ríkishlutafélag um póstdreifingu, er ekki framarlega í röð þeirra fyrirtækja sem til stendur að ríkið losi sig við. Miðað við þann hraða sem verið hefur á einkavæðingunni þýðir það væntanlega að langt er í einkavæðingu hans, svo ekki sé meira sagt. Þó er auðvitað engin ástæða til að ætla að hið opinbera sé færara en einkaaðilar um að dreifa pósti á milli manna. Raunar má gera ráð fyrir því að ef einkaaðilar kæmu meira inn í dreifingu pósts mundi þjónustan batna og hagkvæmnin verða meiri.
Póstþjónustan í Bandaríkjunum er í höndum hins opinbera eins og hér á landi og er hún afar léleg eins og allir þekkja sem hafa þurft að nýta sér hana. Þar í landi eru margir þeirrar skoðunar að hún væri betur komin í höndum einkaaðila og er athyglisvert fyrir okkur að lesa vitnisburð fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings um þetta mál. Þar er því haldið fram að menn eigi ekki að spyrja sig hvort það eigi að einkavæða póstþjónustuna, heldur hvort einhver ástæða sé til þess að viðhalda einokuninni. Svarið er vitaskuld hátt og snjallt nei.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að bresku blöðin People, The Observer og Sunday Express hafi um síðustu helgi hvatt til þess að skoðaðir yrðu kostir þess að leyfa neyslu kannabisefna. Niðurstöður tveggja breskra skoðanakannana benda einnig til þess að meirihluti sé fyrir tilslökunum á lögum um kannabis. Raddir eins og þessar, um að athuga eigi með lögleiðingu hinna veikari fíkniefna, verða æ sterkari. Menn sjá að bannið hefur ekki skilað þeim árangri sem til stóð en hefur þess í stað í för með sér mikla undirheimastarfsemi. Það væri vissulega til bóta ef umræðan hérlendis færðist af því plani, að halda að hægt sé með einni yfirlýsingu að gera landið fíkniefnalaust á einhverju tilteknu ári í framtíðinni, og yfir í að finna raunhæfar lausnir á þeim vanda sem fylgir bæði fíkniefnum og núverandi löggjöf um þau.
Einn af kostum Netsins er að hægt er að glugga í stórar eða sérhæfðar bókabúðir án þess að setjast upp í flugvél. Ein af þessum búðum er Laissez Faire bókabúðin, en í henni má finna mikið af áhugaverðum bókum sem snerta hugmyndir frjálslyndra manna.