EUFANS |
Evrópuhugsjónin kemur í bæinn. Ungmenni fagna færri atvinnutækifærum. |
Félagsmálaráðherra mun óska eftir því af þingmönnum í vetur að þeir samþykki frumvarp sem felur í sér kostnað fyrir almenna vinnumarkaðinn upp á 500-900 milljónir króna í upphafi og svo 400-700 milljónir króna það sem eftir er, allt til enda veraldar, samkvæmt kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Kostnaður ríkisins af frumvarpinu hefur ekki verið metinn nema að hluta til, en þó er ljóst ef marka má tölur fjárlagaskrifstofu að hann mun nema hundruðum milljóna króna á ári. Nú mætti ætla þegar þingmenn eiga að samþykkja að krefjast slíkra upphæða af almenningi að brýn nauðsyn bæri til og helst að annars væri allt í hers höndum. Svo er þó ekki. Frumvarp félagsmálaráðherra snýst um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en nú munu ákvæði þeirra laga ekki nógu fagleg og fín og ekki falla nógu vel að Evrópuhugsjóninni. Sú alræmda hugsjón krefst þess nú að gert verði „skriflegt mat um áhættu í störfum, áætlun um forvarnir og forgangsröðun úrbóta og heilsuvernd innan fyrirtækis“, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Auk þess verður í nafni hugsjónarinnar að taka upp „meginreglur tilskipunarinnar um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar“, enda væri annars hætta á að áfram yrði sami munur á vinnumarkaðnum hér og í Evrópusambandinu og að atvinnulausum myndi ekki fjölga hér sem heitið getur. Með lagabreytingunni eykst kostnaður vegna starfsmanna, sem hefur aðeins þá afleiðingu að atvinnutækifærum fækkar.
Nú er það vitaskuld ekki svo að ríkið hér sé nú svo laust við afskiptasemi að ekki séu til lög um vinnuvernd, enda er eins og áður segir um breytingu á lögum að ræða. Í þeim lögum er meðal annars kveðið á um að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs að búnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Allt er þetta gert undir vökulu auga Vinnueftirlits ríkisins, sem hefur ekki það hlutverk að sjá til þess að menn haldi sig að vinnu, heldur frekar að menn vinni ekki of mikið, enda telur ríkið sig varða um hve mikið fólk vinnur og hvernig það ber sig að við vinnu sína. En raunin er sum sé sú, að þrátt fyrir að ríkið hafi þegar með höndum vinnueftirlit, þá er enn hægt með aðstoð Evrópusambandsins og hugmyndum þaðan, að auka við kostnað vegna þessa eftirlits, með skriflegum áætlunum, áhættumati og svo framvegis. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins hafa Samtök atvinnulífsins í umsögn um lagabreytinguna lagt á það áherslu að hún valdi íslenskum fyrirtækjum ekki kostnaði umfram það sem leiðir beint af EES-reglunum. Hætt er við að lítið verði hlustað á þau tilmæli, enda verða það ekki þingmenn sem bera kostnaðinn af þessu nýja evrópska skrifræði heldur atvinnurekendur, launþegar og neytendur.