Gerum ráð fyrir að maðurinn sem var handtekinn á Keflavíkurflugvelli með 67 þúsund e-töflur og dæmdur í 12 ára fangelsi hafi verið á leið til Íslands en ekki Bandaríkjanna með pillurnar. Á hverjum hefði hann brotið hefði hann komist með þær inn í landið? Hvar er fórnarlambið? Vart halda menn því fram í alvöru að fíkniefnaneytendurnir séu fórnarlömbin – þeir greiða stórfé fyrir efnin og sumir gera næstum hvað sem er til að komast yfir næsta fix. Er þá verið að dæma mann í 12 ára fangelsi – gera stóran hluta ævi hans upptækan – fyrir glæp þar sem ekkert fórnarlamb er til staðar?
Fíkn í hin ýmsu efni er mikið böl. Hvernig er best að hjálpa þeim sem ofurseldir eru fíkninni? Undanfarna áratugi hafa stjórnmálamenn á Vesturlöndum talið sig geta stöðvað framboð fíkniefna og þar með upprætt fíknina. Þetta hafa þeir að minnsta kosti sagt, hverju svo sem þeir trúa. Þessi leið hefur ekki skilað árangri. Ekkert lát er á framboði fíkniefna og ný efni koma á markaðinn á hverju ári. Fíkniefnabannið tryggir glæpamönnum í raun einkarétt á framleiðslu, dreifingu og sölu efnanna. Bannið tryggir einnig hátt verð á efnunum, sem flest eru ódýr í framleiðslu, og mikinn hagnað af þessum áhættusömu viðskiptum. Fíkniefnaneytendur þurfa að leita til glæpamannanna til að svala fíkninni. Hið háa verð vegna bannsins leiðir fljótt til þess að fíkillinn þarf að fjármagna neysluna með afbrotum. Í þeim afbrotum, ránum, innbrotum og tilheyrandi ofbeldi eru fórnarlömb. Þau fórnarlömb eru fórnarlömb fíkniefnabannsins.
Hinn kosturinn er að leyfa þau ávanabindandi efni sem ekki eru þegar leyfð í dag. Ætli staða þess ógæfufólks sem ánetjast hefur efnunum yrði verri ef efnin fengjust hjá lyfsala? Stór hluti þeirra sem deyr af völdum fíkniefnaneyslu deyr vegna of stórra skammta og óhreinna efna og óhreinna sprautunála. Það blasir einnig við að verð mundi lækka ef banninu yrði aflétt. Þar með myndi fjárhagsleg neyð fíklanna minnka og fjármögnunarafbrotum þeirra fækka.
Misnotkun fíkniefna mun ekki hverfa þótt banni við þeim verði aflétt. En möguleikarnir til að hjálpa þeim sem lenda í ógöngum munu batna stórkostlega.