Orkunotkun mannsins hefur alltaf haft áhrif á umhverfið. Skógar voru lengi höggnir í eldinn og hvalir veiddir af miklu kappi og lýsi þeirra notað til lýsingar. Um miðja nítjándu öld leysti jarðefnaeldsneyti þessa orku- og ljósgjafa af hólmi. Ætli væri nokkuð hægt að ættleiða hval í dag ef steinolían hefði ekki komið í stað lýsis í lampa mannsins? Og ætli væri ekki færri tré að faðma ef kol, olía og gas hefðu ekki komið í stað timburs í ofnum mannsins? Í dag er 80% af orkuframleiðslu mannsins mætt með bruna jarðefnaeldsneytis. Frá því maðurinn komst upp á lag með að nýta hann hafa lífskjör hans tekið ótrúlegum framförum. Aðrar orkuframleiðsluaðferðir standast þessum bruna ekki snúning. Nýting á vind- og sólarorku hefur lengi þótt vænlegur kostur en lítið orðið úr. Kjarnorka hefur komist næst því að keppa við brunann en af „umhverfisverndarástæðum“ eru kjarnorkuver ekki vel séð og vart reist í dag. En hvað með vetnið? Er það ekki framtíðin? Ef til vill. Það er aðeins einn galli á vetnisdæminu. Það þarf meiri orku til að framleiða vetnið en notkun þess gefur af sér. Vetnisframleiðsla krefst með öðrum orðum orkugjafa.
Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp hér er að það heyrist af og til að það sé hægur vandi að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Það eru jafnvel gerðir alþjóðlegir samningar um að minnka notkun þess. Á máli gesta á alþjóðlegum ráðstefnum heita slíkir samningar gjarnan „bókun um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda af manna völdum“. Á frægri umhverfisráðstefnu í Ríó fyrir áratug strengdu ýmsir þjóðarleiðtogar þess heit að draga úr þessum útblæstri. Lítið varð um efndir. Síðar var þetta heit endurnýjað undir nafni Kyoto. Kyoto samningurinn er byggður á tölvulíkönum sem gera ráð fyrir að hiti andrúmslofts jarðar muni hækka vegna aukins styrks svonefndra gróðurhúsalofttegunda. Koltvísýringur er ein þessara lofttegunda og hann myndast við bruna jarðefnaeldsneytis. Koltvísýringur er ekki eitruð lofttegund eins og hann kemur fyrir í andrúmsloftinu heldur uppistaðan í ljóstillífun plantna, grunvöllur lífs á jörðinni. Því meiri koltvísýring sem plöntur hafa því betri spretta. Tölvulíkönin gera ráð fyrir að án Kyoto samningsins muni andrúmsloftið hitna um 1,00°C á næstu 50 árum. Ef allir standa við samninginn mun hitinn hækka um 0,96°C. Á hádegi hinn 17. júní árið 2050 mun hitinn á Austurvelli því ekki verða 10,00°C heldur 9,96°C. Verður sjálfsagt ekki mörgum hugsað hlýlega til Kyoto í rokinu og rigningunni.
Bandaríkin hafa sem kunnugt er, eins og George W. Bush lofaði í kosningabaráttu sinni árið 2000 og öldungadeild Bandaríkjaþings hafði gert mönnum ljóst, hafnað þátttöku í Kyoto samningnum. Samningurinn gerði enda ráð fyrir að Bandaríkin þyrftu að minnka áætlaða orkunotkun sína árið 2012 um 25%. Samningurinn gerir hins vegar ráð fyrir að ríki eins og Kína, Indland og Mexíkó geti aukið orkunotkun sína óheft. Það er meginástæðan fyrir því að hátíðargestir á Austurvelli árið 2050 munu eiga erfitt með að finna fyrir Kyoto kælingunni.