Líklega er búið að telja ansi mörgum trú um að fyrirtæki sem nefna sig fjölmiðla eigi rétt á upplýsingum um allt og alla. Og menn eru jafnvel farnir að trúa því að ekkert sé rangt við að fjölmiðlar geri menn út af örkinni til að stela upplýsingum, jafnvel upplýsingum sem hefði mátt fá með því einu að spyrja. Að minnsta kosti virðast menn ekki telja sig eiga kost á öðru en að svara þegar fjölmiðlar, sjálfskipaðir „fulltrúar almennings“, spyrja. Stjórnarformaður Reyðaráls sem undirbýr álver við Reyðarfjörð hefur nú upplýst að hann hafi svarað gegn betri vitund þegar fjölmiðlar spurðu hann í síðasta mánuði um þátttöku Norsk Hydro í byggingu álvers í Reyðarfirði. Í stað þess að neita einfaldlega að tjá sig við „fulltrúa almennings“ um stöðu mála tók hann þann kost að greina ekki rétt frá. Auðvitað hefur hið rétta svo komið í ljós.
RADIOÞað sem menn munu vonandi læra af þessari uppákomu, annað en að segja fremur satt og rétt frá en rangt, er að menn þurfa ekki alltaf að svara þegar sjálfskipaðir fulltrúar almennings hringja. Fjölmiðlar eru ekki fulltrúar almennings umfram önnur fyrirtæki og þótt þeir væru það ættu þeir engan sérstakan rétt á upplýsingum. Sumt varðar fjölmiðla einfaldlega ekki um og þeir eiga engan rétt á upplýsingum umfram Pétur og Pál. Tveir aðilar sem eiga í viðræðum um hugsanleg viðskipti sín á milli skulda fjölmiðlum engar skýringar um gang þeirra. Fjölmiðlar eiga engan rétt á slíkum upplýsingum þótt þeir tilefni sjálfa sig fulltrúa almennings eða fjórða valdið. Þeir gætu allt eins útnefnd sig fulltrúa almættisins. Það getur hver sem er tilnefnt sig hvað sem er en það hefur bara ekkert að segja, vonandi.
Fjölmiðlar eru ekki merkilegri en önnur fyrirtæki sem stunda viðskipti. Þeir eru eins og önnur fyrirtæki að selja eitthvað með sem mestum fjárhagslegum ávinningi. Einkareknir fjölmiðlar hafa það raunar sér til ágætis umfram ríkisrekna að þeir þurfa að gera viðskiptavinum sínum til geðs á meðan þeir ríkisreknu sinna fyrst og síðast áhugamálum starfsmanna sinna. En það breytir því ekki að þeir eru ekki merkilegri en kvikmyndahús eða skóbúðir og ekkert fremur „fulltrúar almennings“ en önnur fyrirtæki sem selja þjónustu sína.