Fimmtudagur 5. apríl 2001

95. tbl. 5. árg.

Vef-Þjóðviljinn hefur ánægju af því að rifja upp síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þær voru ekki aðeins afar spennandi heldur vann George W. Bush í fyrstu talningu, annarri talningu og einnig þriðju handtalningu í Flórída og fékk meirihluta kjörmanna. Al Gore lýsti sig sigraðan en Karl Blöndal blaðamaður á Morgunblaðinu hélt hins vegar baráttunni áfram fyrir Gore og sagði í pistli í Morgunblaðinu 14. desember að  „í raun sé ljóst“ að Gore hafi fengið fleiri atkvæði í Flórída. Þessu héldu fleiri vonsviknir evrópskir vinstri menn einnig fram í trausti þess að enginn hefði fyrir því að fara enn einu sinni yfir kjörseðlana umdeildu í Flórída eða slík athugun minnkaði ekki óvissuna um úrslitin. Dagblöðin Miami Herald og USA Today létu hins vegar fara yfir seðlana og niðurstaða þeirrar athugunar var birt í gær. Ef farið hefði verið að ýtrustu kröfum stuðningsmanna Gore um enn eina talningu hefði Bush aukið forskot sitt úr 537 atkvæðum í 1.655.

Í viðtali við fréttavef CNN í gær var sagt frá þessu undir fyrirsögninni „Bush vinnur enn einu sinni í Flórída í endurtalningu fjölmiðla“. Í fréttinni var eftirfarandi haft eftir Mark Seibel ritstjóra Miami Herald: „Þegar upp er staðið tel ég að við höfum líklega staðfest að George W. Bush átti að verða forseti Bandaríkjanna.“
Eins og sagt var frá í Vef-Þjóðviljanum í gær á Morgunblaðið afar bágt með að fara rétt með þegar George W. Bush er annars vegar. Því treystir Vef-Þjóðviljinn á að Morgunblaðið birti frétt fljótlega þar sem segir að rannsókn Miami Herald og USA Today á kjörseðlunum í Flórída hafi sýnt og sannað að Karl Blöndal hafi haft rétt fyrir sér. Það sé í raun ljóst.

Guðmundur Árni Stefánsson og aðrir hæfilega nútímalegir jafnaðarmenn hafa verið með miklar upphrópanir vegna fyrirætlana í Hafnarfirði um að aðrir en bærinn reki skóla. Ætla mætti að reynslan af því að aðrir en opinberir starfsmenn kenni börnum að draga til stafs, leggja saman og margfalda sé slík að hætta sé á að í Hafnarfirði verði í framtíðinni mikið ólæsi og almennur þekkingarskortur. Svo er þó ekki, enda sú hugmynd að opinberir starfsmenn einir séu færir um að miðla þekkingu alveg með ólíkindum vitlaus. Svo vitlaus að jafnvel Samfylkingunni er varla samboðið að viðra hana opinberlega.

Í breska blaðinu Guardian er sagt frá því að fyrir tveimur árum hafi verið mikið ólag á kennslu barna í Islington, en þá hafi einkafyrirtæki tekið að sér reksturinn og nú hafi hlutirnir snúist við. Sömu sögu er að segja um reynsluna frá Bandaríkjunum. En auðvitað þarf engar reynslusögur til að sannfæra menn um að einkaaðilar séu betur til þess fallnir en opinberir aðilar að sjá um kennslu. Hvaða ávinningur er að því fyrir kennara hjá hinu opinbera að standa sig vel? Jú, þeir hafa vafalaust ánægju af að sjá nemendum sínum ganga vel, en það á líka við um kennara í einkaskólum svo þar standa einkaskólar jafnfætis hinum opinberu. Annar mælikvarði á hvata er einkaskólunum í vil og því allar líkur til að kennarar þar muni frekar keppast við að ná árangri en kennarar hjá ríki eða sveitarfélögum.