Vörugjald á bensín er 97% á innkaupsverð. Innkaupsverðið er nú um 12 krónur. Nú á að afnema 97% vörugjaldið en leggja þess í stað á vörugjald sem verður um 10,50 krónur. Með þessum breytingum á vörugjaldi á bensíni er tryggt að íslenskir bifreiðaeigendur munu ekki njóta þess sem áður ef innkaupsverð á bensíni fer niður fyrir 10 krónur. Þá munu þeir tapa á þessari breytingu. Vegna íslenskra ofurskatta á bensín hefur það hækkað um yfir 10 krónur á þessu ári. Nú býður ríkisstjórnin heilar 2 krónur í afslátt af þessum auknu áhrifum skattheimtunnar. En afslátturinn verður að hækkun ef heimsmarkaðsverð á bensíni lækkar! Þegar bensínlítrinn verður kominn niður í 6 krónur á heimsmarkaði verður vörugjaldið, sem nú er 97%, orðið 175%. Þetta skattahneyksli ríkisstjórnarinnar, sem á stóran þátt í þeirri verðbólgu sem nú mælist, ætti að verða hverri ærlegri stjórnarnandstöðu til framdráttar. Því miður lofuðu stjórnarandstöðuflokkarnir því hins vegar fyrir kosningarnar í vor að hækka skatta á bensín.
Slæmar fréttir eru alvöru fréttir. Í sumar hafa borist fréttir af miklum þurrkum með tilheyrandi vatnsskorti í Maryland, Pennsylvaniu og fleiri ríkjum Bandaríkjanna. Í skýrslu frá CATO Institute er því kennt um að hið opinbera útvegi vatnið. Opinberar vatnsveitur sendi fólki og fyrirtækjum ekki upplýsingar um yfirvofandi skort með verðhækkun og því endi þetta með ósköpum og skömmtunum. Þeir félagar Bill Clinton og Al Gore hafa reynt að gera sér mat úr þessari þurrkatíð eins og öðrum kenjum náttúrunnar og hafa blandað gróðurhúsaáhrifunum í málið. Í annarri skýrslu frá CATO Institute kemur hins vegar fram að sumarhitar í Bandaríkjunum eru ekki meiri nú en fyrr á öldinni. Hitinn hækkaði að vísu á milli áranna 1900 og 1930 en það var áður en maðurinn fór að blása að gagni frá sér þeim lofttegundum sem eiga að auka gróðurhúsaáhrifin.