Fimmtudagur 3. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 3. tbl. 17. árg.

Meðal þess sem „hreina“ vinstri stjórnin ætlar sér að hreinsa burt fyrir kosningar í vor er sú aðferð sem Íslendingar hafa – í nokkrum skrefum og með ýmsum útútdúrum á ríflega þremur áratugum – gert að hryggjarstykkinu í nýtingu fiskistofna við landið. 

Með þessari aðferð hefur tekist að stöðva hnignun fiskistofna. Íslenskur sjávarútvegur er ekki baggi á skattgreiðendum heldur stendur hann undir sér og greiðir starfsfólki góð laun. Ekkert af þessu þykir sjálfsagt í nágrannalöndum okkar.

Í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar er viðtal við Þráinn Eggertsson prófessor. Þar segir hann um íslenska kvótakerfið:

Íslendingar og reyndar einnig Nýsjálendingar eru með með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Samkvæmt norskri athugun er framleiðni í íslenskum sjávarútvegi helmingi meiri en í Noregi. Góð lífskjör á Íslandi eru háð góðu skipulagi í sjávarútvegi. Í flestum öðrum löndum er sjávarútvegurinn lágtekjugrein og alls ekki driffjöður hagkerfisins eins og hjá okkur. Það er lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með hagkvæmt stofnanaumhverfi fyrir undirstöðugrein hagkerfisins. Og slíku kerfi höfum við komið upp. 

Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni hvers vegna flokkar sem nefna sig græna vilja endilega eyðileggja kerfi sem hefur reynst öðrum betur við að viðhalda auðlindum hafsins.