Laugardagur 2. janúar 1999

2. tbl. 3. árg.

Bandaríski auðkýfingurinn Jim Rogers fer nú hringinn um Ísland á heiðgulum Mercedes Benz en aksturinn um Ísland er eins og fréttir hafa greint frá að undanförnu upphafið að akstri Rogers hringinn í kringum hnöttinn. Það er ætlun Rogers að skrásetja það sem fyrir augu ber um víða veröld við árþúsundaskiptin en ferðinni lýkur ekki fyrr en að förnum 150.000 kílómetrum 31. desember árið 2001 í New York.

Investment Biker
Investment Biker

Rogers efnaðist á verðbréfaviðskiptum á Wall Street en lét af störfum 37 ára gamall. Hann stofnaði meðal annars fjárfestingarsjóðin Quantum Fund með George Soros. En þetta er ekki í fyrsta sinn er Rogers gerir víðreist um heiminn. Árið 1990 fór hann vítt og breitt um heiminn á BMW mótorhjóli og lýsti því sem hann kynntist í bókinni Investment Biker – On the Road with Jim Rogers. Í bókinni lýsir Rogers skorti á mat og lyfjum vegna óskynsamlegar (of mikillar) stjórnar sem hann varð víða vitni að, spilltum embættismönnum sem víða þarf að múta til að sinna einföldustu verkefnum eins og að stimpla vegabréf á landamærum, hvernig „iðnaðar“héruð Austur-Evrópu komu honum fyrir sjónir sem brotajárnshaugar þar sem hann ók um olíumakaða („allir bílar kommúnista hafa olíuleka“) vegi um það leyti sem alræðisríkin riðuðu til falls og svo veitir hann lesendum ýmis ráð um hvernig menn komast af þar sem embættismenn eru venju fremur ágjarnir. Svo sem hvar sé best að fara yfir landamæri, hvar sé best að geyma peninga, hvernig menn bjargi sér þar sem vöruskortur er og nauðsynlegt er að treysta á svarta markaðinn o.s.frv. Bókina má panta í gegnum heimasíðu Rogers þar sem hann lýsir einnig ferð sinni og ástæðunni fyrir því að hann hefur hana hér á landi.