Mánudagur 8. júní 1998

159. tbl. 2. árg.

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í gær og notaði sjávarútvegsráðherra tækifærið til að fara nokkrum orðum um þá andstöðu sem er við fiskveiðistjórnunarkerfi okkar. Það skýtur nefnilega skökku við að kerfi sem reynst hefur vel skuli sæta þeirri gagnrýni sem raun ber vitni og er sú gagnrýni út af fyrir sig verðugt rannsóknarefni mannfræðinga. En það sem nú virðist gagnrýnendum kerfisins helst þyrnir í auga er aukning kvóta vegna stækkandi fiskistofns. Þó er það eitt af grundvallaratriðum í kerfinu að þeir sem veiðiréttinn hafa hagnist á skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar og tapi á óskynsamlegri nýtingu hennar. Það er nauðsynlegt ef kvótaeigendur eiga áfram að sýna ábyrgð í umgengni við þessa auðlind að þeir hagnist þegar vel tekst til við stjórnunina en tapi þegar verr gengur. Fyrir nokkrum árum tóku þeir á sig verulega skerðingu, en eru í dag að fá hana til baka, þó nokkuð vanti að vísu upp á að þeir hafi náð fyrra kvótamagni. Ef látið er undan öfundarröddum og þessi innbyggði hvati kerfisins tekinn úr sambandi er hætt við að stutt verði í að ábyrgðarleysi verði aftur ríkjandi í umgengni við auðlindina.

Frasakeppni vinstri manna heldur áfram á síðum dagblaðanna, en hún hófst um það leyti sem þeir áttuðu sig endanlega á því að enginn vildi kjósa þá vegna skoðana þeirra á þjóðmálum. Einn skæðasti keppandinn, Helgi Hjörvar, skrifar greinina „Nýtt vinstri“ í Moggann á laugardag og kennir þar margra frasa. „Hið nýja vinstri er frjálslynt stjórnmálaafl, víðsýnt og umburðarlynt,“ segir Helgi, og hver vill svo sem ekki uppfylla þessi skilyrði. Svo leggur hann mikla áherslu á að hið nýja vinstri sé stjórnmálaafl „nýrrar aldar“, enda verða menn a.m.k. að vera nútímalegir ef þeir hafa ekkert nýtt fram að færa.

Annar keppandi, yngri en þó ekki síðra efni, er Þorvarður Tjörvi Ólafsson og ritar hann í Mogga fimmtudagsins síðasta. Hann fjallar um sameiningu vinstri manna og slær Helga við í lokaorðum sínum, en þar segir: „Teningunum er kastað. Framtíðin er okkar. Vilji er allt sem þarf.“ Hann hefði svo sem getað bætt við „hálfnað er verk þá hafið er,“ „nú er að duga eða drepast“ eða „fram þjáðir menn í þúsund löndum“ – nei annars, það má ekki lengur – en viðleitnin var engu að síður góð.

Vilji menn meta hið nýja vinstri er þó líklega vænlegra til árangurs að skoða verk þess er orðagjálfur. Í Reykjavík kostaði fyrirbærið almenning tvo milljarða króna í skattgreiðslur á síðasta kjörtímabili, en á meðan vildi svo til að nýjustu boðberar þessarar „nýju“ vinstri stefnu, fóstbræðurnir Helgi Hjörvar og Hrannar Arnarsson, drógu skattgreiðslur sínar árum saman, eða þar til upp komst rétt fyrir kosningar. Kannski mun þetta einkenna hið nýja vinstri: Þyngri byrðar fyrir almenning en þægilegri fyrir nýjan vinstri aðal.