Þriðjudagur 9. september 1997

252. tbl. 1. árg.
Samkvæmt lögum eiga allir eigendur viðtækja…
sem nýta má til móttöku sendinga Ríkisútvarpsins að greiða afnotagjald til stofnunarinnar. Til að tryggja að allir fari eftir þessum lögum gerir Ríkisútvarpið út njósnasveitir sem gægjast á glugga hjá fólki og gera því annað rusk. Árið 1977 sendi Vilhjálmur Hjálmarsson, þáverandi menntamálaráðherra, Ríkisútvarpinu hins vegar bréf þar hann gaf stofnuninni leyfi til að fara ekki eftir lögunum með því að starfsmenn hennar þyrftu ekki að greiða afnotagjaldið. Frá þeim tíma hafa starfsmennirnir ekki þurft að greiða afnotagjöldin. Ekki er óvarlegt að ætla að Ríkisútvarpið verði árlega af um 8 milljóna króna tekjum vegna þessa. Þá hafa starfsmennirnir ekki gefið þessi hlunnindi upp til skatts þótt nær fullvíst megi telja að að vöruúttektir eða fríðindi af þessu tagi séu skattskyld.

Fernt í þessu máli er afkáralegt:…
Í fyrsta lagi að ráðherra skuli gefa undanþágu frá skýrum lögum án þess að hafa til þess heimild. Í annan stað að Ríkisútvarpið og starfsmenn þess skuli brjóta þau lög sem stofnunin hamrar sífellt á að aðrir fari eftir. Í þriðja lagi vekur það furðu að skattrannsóknaryfirvöld skuli ekki hafa kannað þetta mál. Í fjórða lagi er það undarlegt að þeir menntamálaráðherrar sem setið hafa frá því Vilhjálmur ritaði bréfið um að ekki þrufi að fara eftir lögum hafi látið það átölulaust að lögbrot sé framið í stofnun sem undir ráðuneytið heyrir.

Fréttir bárust af því um helgina að forustusauðir…
flokklingsins Þjóðvaka hygðust leggja til á aðalfundi að hópurinn mundi ekki bjóða fram sem sérstakt afl í næstu Alþingiskosningum. Með þessu mætti ætla að þessi tilraun Jóhönnu Sigurðardóttur til að skapa flokk um eigin persónu hefði loks runnið út í sandinn við lítinn orðstír. Það var þó aldeilis ekki á að heyra á formanni flokksins. Jóhanna birtist sigri hrósandi á skjánum og lýsti því hvernig endalok flokksins – sem í reynd voru ljós fyrir allnokkru- væru liður í þrautskipulagðri áætlun þeirra félaga um sigur félagshyggjunnar. Á annarri mynd sáust þingmenn Þjóðvaka sitja glottandi umhverfis borð, á svipinn eins og þeir hefðu leikið út alveg sérstöku trompi og upplausn ríkti nú í röðum andstæðinga. Minna var gert úr því að með uppgjöf þessari er flokkurinn að bregðast stuðningmönnum sínum þótt ekki séu þeir margir, fórna þeim fyrir von forkólfanna um bitlinga í röðum annarra, og ef til vill lífvænlegri, flokka þegar kjörtímabilið er rétt rúmlega hálfnað.

Að standa og falla er þjóðvakafólki…
greinilega ógeðfellt, enda ef til vill ekkert í hugmyndum flokksins sem vert er að falla fyrir er til kastanna kemur. Ætla má að flestir áhorfendur hafi orðið nokkuð kindarlegir við þessi rök Jóhönnu enda vandséð hvernig flokkur sem nú er aðeins nafnið tómt og í eru sirka fimm félagar getur verið merki um árangur í stjórnmálum eða hvernig rökin fyrir endalokum slíks flokks geta falist í frábærum árangri hans. Þó var ekki annað að sjá en þingmenn Þjóðvaka, íbyggnir á svip, væru ánægðir með stöðu mála enda munu þeir eflaust telja sig geta haldið vinnunni þótt vinnuveitandinn hafi lagt upp laupana!