Einhver mesta ógnin, sem að íslenskum ungmennum stafar…
um þessar mundir, er vaxandi fíkniefnavandi. Fíkniefni sem slík eru ekki eini skaðvaldurinn heldur hvers konar vandamál sem neyslunni fylgja, svo sem þjófnaðir og innbrot til að kosta hana, líkamsárásir, vændi og hvers kyns spilling önnur. Þetta sagði í leiðara Morgunblaðsins á miðvikudaginn var.
Hér benda leiðarahöfundarnir (sennilega óvart þó) á þann böggul sem fylgir því skammrifi sem bann við sumum fíkniefnum er. Með banni er verði efnanna hleypt upp úr öllu valdi svo fíkniefnaneytendur verða að grípa til örþrifaráða til að fjármagna neysluna. Meðal þessara örþrifaráða eru innbrot í íbúðarhús, fyrirtæki og býla og þjófnaður af saklausum vegfarendum með tilheyrandi ofbeldi og líkamstjóni. En eykst ekki neyslan ef banninu verður aflétt og verðið lækkar? Kannski. En líklegra er að neyslan verði svipuð en fylgifiskarnir færri og smærri. Fíkniefnasalar í dag gefa fólki nefnilega frítt smakk til að koma því á bragðið. Og af fréttum að dæma er auðveldara að ná sér í dóp en flest annað. Það mun vera opið allan sólarhringinn hjá sölumönnum ólíkt því sem gerist hjá hinni löggiltu dópsjoppu, ÁTVR.
Hins vegar eru það furðulegir fordómar hjá leiðarhöfundi að flokka vændi sem spillingu…
og draga þá atvinnugrein í dilk með ránum og líkamsárásum. Margt heiðarlegt fólk stundar vændi þótt þar kunni að vera misjafn sauður í mörgu fé, rétt eins og meðal blaðamanna og allra annarra starfsgreina. Vændi, eins og önnur atvinnustarfsemi, byggist á gagnkvæmum vilja til viðskipta. Það gera rán og líkamsárásir ekki.
En fleiri fordómar leiðarhöfundar Morgunblaðsins birtust í þessum leiðara sem hét því aðlaðandi nafni Þörf á ströngu eftirliti. Þannig stóð t.d.í umfjöllun leiðarhöfundar um nektardansstaði: Loks eru þrír veitingastaðir í Reykjavík, sem hafa fastráðnar nektardansmeyjar. Fatafellurnar eru flestar erlendar. Það var og – fatafellurnar eru erlendar! Hvað er leiðarahöfundur að fara? Er þjóðernishyggja leiðarahöfundar Morgunblaðsins farin að birtast í andúð á erlendum dansmeyjum?