Vefþjóðviljinn 31. tbl. 20. árg.
Fyrr í þessum mánuði voru sagðar af því fréttir að maður einn, sem fengið hafði dóm fyrir ákaflega alvarlegan glæp, hefði eftir afplánun beðið um að fá lögmannsréttindi sín að nýju. Fram kom í fréttum að maðurinn hefði á síðasta ári fengið uppreist æru. Um þetta var fjallað í fréttum og fréttaskýringaþáttum að ógleymdri umræðu vefmiðlanna, og höfðu margir miklar skoðanir á þessu máli og sterkar tilfinningar, eins og þarf ekki að koma á óvart.
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að setja fram skoðun á máli þessa manns. En umræðan um málið var athyglisverð, í gerólíku samhengi.
Í umræðunni bar ekkert á því að forseti Íslands væri gagnrýndur fyrir að hafa veitt manninum uppreist æru. Enginn fór til Bessastaða og spurði Ólaf Ragnar út í rök fyrir ákvörðun hans.
Og auðvitað ekki, hugsa eflaust margir. Forsetinn tekur enga ákvörðun í málinu.
Samkvæmt lögum er það forseti Íslands sem veitir uppreist æru. En að sjálfsögðu ræður forsetinn persónulega engu um það hvort fallist er á umsókn um uppreist æru. Ef ráðherrann ákveður að fallast á umsóknina þá skrifar forsetinn undir, enda er það ráðherrann en ekki forsetinn sem ber ábyrgðina. Forsetinn getur verið persónulega alveg á móti því að einhver fái uppreist æru, en hann skrifar samt undir ef ráðherrann ákveður það. Stjórnskipanin er þannig og þess vegna hefði verið fráleitt að spyrja Ólaf Ragnar Grímsson um rök fyrir þeirri ákvörðun að veita þessum manni uppreist æru.
En hvernig var það þegar fyrrverandi alþingismaður fékk uppreist æru á sínum tíma? Hvernig létu fjölmiðlar þá?
Var þá ekki gert úr því stórmál að málið var afgreitt þegar Ólafur Ragnar var erlendis. Handhafar forsetavalds skrifuðu undir bréfið. Þetta þótti mörgum sýna hvers kyns var. Það hefði auðvitað verið algert hneyksli að fyrrverandi þingmaðurinn fékk uppreist æru, Ólafur Ragnar hefði aldrei tekið þátt í slíkri lögleysu, og því notuðu þessi spilltu stjórnvöld tækifærið, loksins þegar hann fór úr landi, til að lauma málinu í gegn. Þessar kenningar má enn heyra af og til, þótt það gerist auðvitað sjaldnar eftir því sem tíminn líður.
Auðvitað var þetta alger misskilningur. Forsetinn hefði skrifað undir uppreist æru þingmannsins fyrrverandi rétt eins og hann hefur vafalaust skrifað undir hjá þeim manni sem var í fréttum fyrr í þessum mánuði. Og þeir sem töldu að spillt stjórnvöld hafi ekki viljað leggja lögleysuna undir augu Ólafs Ragnars Grímssonar hafa líklega ekki skilið heldur að meðal handhafa forsetavalds er forseti Hæstaréttar, sem hefur eflaust vitað sitt af hverju um lög og reglur í landinu.
Og þegar menn sjá að jafnvel þeir, sem dæmdir hafa verið fyrir jafn alvarlegan glæp og maðurinn sem var í fréttum nú í janúar, fá uppreist æru ef þeir biðja um hana, þá sjá þeir líka hversu fráleitt það hefði verið ef þingmaðurinn fyrrverandi hefði ekki fengið hana. Í raun leggur ráðherra ekkert mat á umsókn um uppreist æru. Annað hvort uppfylla menn skilyrði fyrir henni eða ekki, og þau eru talin upp í lögum.
En hvers vegna er verið að rifja þetta upp núna?
Það er vegna þess að mál eins og þessi eru ótrúlega mörg í íslenskri stjórnmálaumræðu. Sífellt er verið að halda fram einhverjum misskilningi. Sé misskilningnum andmælt þá er það gert mun sjaldnar og veikar en misskilningnum er dreift. Þegar við bætist netumræða, þar sem tengja má hvers kyns hugmyndir og kenningar aftan við raunverulegar fréttir, þá þarf ekki að koma á óvart að margir fari að ímynda sér alls kyns hluti um þjóðfélagið.