Vefþjóðviljinn 47. tbl. 19. árg.
Undanfarin ár hefur íslensk stjórnsýsla í ótrúlega stórum mæli litið á sig sem starfsmenn embættismanna Evrópusambandsins. Íslenskir embættismenn hafa lagt mikla áherslu og hreinlega metnað í að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins í íslenskan rétt eins hratt og umræðulítið og hægt er.
Þessi ákefð er eitt af því sem hefur orðið til þess að margir halda að EES-samningurinn feli í sér fullveldisafsal og brjóti stjórnarskrána. Svo er hins vegar ekki. Endanlegt vald um það hvað fer í íslensk lög er hjá íslenskum alþingismönnum og tilskipanir Evrópusambandsins öðlast ekki lagagildi á Íslandi nema alþingi leiði þær í lög. Enda getur EES-samningurinn ekki brotið stjórnarskrána. Hann myndi víkja fyrir stjórnarskránni ef þau færu ekki saman. Gler rispar ekki demant og lög brjóta ekki stjórnarskrána.
Sigrún Magnúsdóttir, nýr umhverfisráðherra, sagði í blaðaviðtali í dag að hún vildi að menn huguðu betur að orðalagi við innleiðingu evrópskra tilskipana. Þessu var tekið með æsingi stjórnarandstæðinga og jafnvel heift annarra. Virtist stundum sem reynt væri að hræða ráðherrann til þess að breyta um afstöðu og láta embættismennina ráða.
Það er engin skylda að þýða tilskipun frá orði til orðs og leiða þannig í lög. Þegar ný tilskipun er gefin út geta menn farið yfir efni hennar og metið hversu vel hún samrýmist gildandi lögum og hversu miklar breytingar þyrfti að gera á þeim, vilji menn að íslensk lög séu í samræmi við hana. Þar fara samningsríkin ólíkar leiðir.
Íslendingar ættu alltaf að fara vandlega yfir efni slíkra tilskipana og athuga hvernig önnur ríki haga sömu málum. Skoða hvaða reglur gilda til dæmis hjá ólíkum ESB-ríkjum, en ekki aðeins á Norðurlöndum, en þar hafa menn oft verið mjög ákafir í innleiðingum.
Það er vel hægt að uppfylla samningsskyldur sínar samkvæmt EES-samningnum en fara samt rólega í innleiðingu efnis tilskipana. Sigrún Magnúsdóttir ætti ekki að láta harða ESB-sinna hræða sig frá því að hægja á innleiðingarhraðlestinni.