Þriðjudagur 3. september 2013

Vefþjóðviljinn 246. tbl. 17. árg. 

Frédéric Bastiat.
Frédéric Bastiat.

Í dag hefur að sögn farið fram mikið hópefli á Facebook þar sem stuðningsmenn ríkisútgjalda til menningarmála reyna að leggja það að jöfnu að vera fylgjandi slíkum byrðum á skattgreiðendur og að vera hlynntur menningu. Hinir séu plebbar.

Þetta er ekki nýtt ryk sem þarna er reynt að kasta í augu fólks.

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat skrifaði svo fyrir hálfri annarri öld í Lögunum:

Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins og þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.

Andríki lét þýða og gaf Lögin út árið 2001 þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Bastiat. Það var gert fyrir þakkarverð frjáls framlög lesenda Vefþjóðviljans. Ritið er löngu uppselt og hefði kannski verið endurútgefið ef menn hefðu undan við að greiða skatta til menningarmála, íþrótta, landbúnaðar, utanríkisþjónustu og svo framvegis.

Það er nefnilega ekki þannig að fjármunir gufi upp ef þeir eru ekki teknir með skattlagningarvaldi af fólki. Hvað myndu venjuleg hjón til að mynda gera við 40 þúsund krónur ef þær væru ekki teknar eru af þeim til að fjármagna Ríkisútvarpið? Væri það örugglega eitthvað „ómenningarlegra“ en útsending á Speglinum, Criminal Minds og Kiljunni? Og já, hvað ef svo væri?