Mánudagur 2. september 2013

Vefþjóðviljinn 245. tbl. 17. árg.

Þingmenn eiga ekki að neyða gildismati sínu upp á annað fólk eins og gert er með lögum um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.
Þingmenn eiga ekki að neyða gildismati sínu upp á annað fólk eins og gert er með lögum um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.

Í gær tóku gildi lög sem skipta sér af því hvernig eigendur fyrirtækja velja í stjórn þeirra. Alþingismenn ákváðu að eigendur fyrirtækja skyldu velja þannig í stjórn fyrirtækisins síns, að minnst 40% stjórnarmanna væru af hvoru kyni um sig. 

Þessi lög eru dæmi um það þegar þingmenn beita löggjafarvaldi til þess að neyða borgarana til þess að eltast við gildismat þingmannanna sjálfra. Þingmennirnir hafa einhverja allsherjarskoðun á kynjahlutföllum í stjórnum fyrirtækja og þeir hika bara ekki við að leiða þessa skoðun sína í lög fyrir alla landsmenn.

Það er núverandi ríkisstjórn ekki til framdráttar að hafa ekki komið í veg fyrir að lög þessi tækju gildi. Það hefði hæglega mátt gera með einfaldri lagabreytingu á sumarþinginu. 

En fyrst það var ekki gert þá verður að treysta á að nýr þingmeirihluti vindi sér í þetta verk, strax á fyrstu dögum haustþings. Það fólk sem á fyrirtæki á einfaldlega að fá að ráða því sjálft hverjum það treystir til að stýra fyrirtækinu sínu.

Hafi ráðherra viðskiptamála, hver sem hann er – nú veit enginn lengur hvar málaflokkarnir liggja í ríkisstjórnum – ekki frumkvæði að breytingu á þessum lögum strax í haust, verða almennir stjórnarþingmenn að taka það að sér. Þeir sem vilja hafa lög sem þessi í gildi misskilja alvarlega hlutverk þingmanna og löggjafarþingsins.