Föstudagur 14. júní 2013

Vefþjóðviljinn 165. tbl. 17. árg.

Gunnar Bragi Sveinsson hefur tekið virkan þátt í umræðum um helstu mál er varða samskipti Íslands við önnur ríki undanfarin ár. Hann hefur verið ósammála helstu álitsgjöfum fjölmiðlanna um ESB og Icesave og þeir eru ekki ánægðir með að hann sé orðinn utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson hefur tekið virkan þátt í umræðum um helstu mál er varða samskipti Íslands við önnur ríki undanfarin ár. Hann hefur verið ósammála helstu álitsgjöfum fjölmiðlanna um ESB og Icesave og þeir eru ekki ánægðir með að hann sé orðinn utanríkisráðherra.

Ísland fékk nýjan utanríkisráðherra á dögunum. Ýmsir álitsgjafar og fjölmiðlamenn notuðu tækifærið til að minna fólk á hversu fastir þeir eru sjálfir í eigin heimi. Þeir hófu mikinn söng um að Gunnar Bragi Sveinsson hefði engan áhuga á utanríkismálum, ekkert vit á utanríkismálum og vafamál væri hvort hann hefði nokkurn tíma komið til útlanda. 

Gunnar Bragi Sveinsson hafði reyndar sem þingmaður beitt sér af krafti í utanríkismálum. Hann var til dæmis einbeittur í baráttunni gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu og tók virkan þátt í baráttunni gegn Icesave-frumvörpunum þremur.

En fyrir álitsgjöfum og fjölmiðlamönnum eru þetta ekki utanríkismál. Þeim þykja „utanríkismál“ fyrst og fremst vera barátta fyrir því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Hafi þeir fleiri „utanríkismál“ þá snúast þau um pólitískan rétttrúnað fyrir botni Miðjarðarhafs og almennan fjandskap út í Bandaríkin, einkum þó ef repúblikani er í hvíta húsinu. Annað er ekki „utanríkismál“ í þeirra huga. Sá sem berst fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og lætur eins og í gangi séu „samningaviðræður“ um þá inngöngu, þeim þykir hann hafa áhuga á utanríkismálum. Sá sem berst gegn aðildinni og veit að í gangi er einhliða aðlögun Íslands að ESB, þeir telja að hann hafi ekki áhuga á „utanríkismálum“. Þeir telja alls ekki víst að hann kunni útlend mál. 

Álitsgjafarnir eru að þessu leyti fastir í eigin þráhyggju. Eins og kratarnir sem heimtuðu að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og sögðu þá í áróðursskyni að það væri „búið að tala um þetta í mörg ár“ og nú yrði að fást „niðurstaða í málið“. En það voru bara þeir sem voru búnir að tala um þetta, gagnrýnislaust árum saman. Þegar aðrir flokkar tóku aðra afstöðu, þá sögðu kratar að aðrir „skiluðu auðu í Evrópumálum“.  Og þeir viðurkenna aldrei aðra „niðurstöðu“ en að Ísland afsali sér fullveldi sínu og renni inn í Evrópusambandið. Þeir sem eru á móti því, kratar kalla þá öfgamenn, harðlínumenn, áhugalausa um utanríkismál, einangrunarsinna og búna að loka á allt samstarf við aðra. Öfugt við krata sem vilja einfaldlega ganga í Evrópusambandið og hlusta ekki á neitt annað.

Og vegna þessarar heimsmyndar krata þá finnst þeim ekkert athugavert við að heimta að umsóknin þeirra verði ekki afturkölluð nema að undangengnu þjóðaratkvæði. En sjálfum fannst þeim ekki koma til greina að leyfa landsmönnum að kjósa um hvort sótt skyldi um aðild. Þeir neita að skilja að hér mun hið sama gilda um báðar ákvarðanir.