Miðvikudagur 2. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 2. tbl. 17. árg.

Þeir hafa líklega ekki verið sérstaklega margir Íslendingarnir sem hafa hist síðasta sólarhringinn og enginn spurt hvernig hinum hafi þótt „Skaupið“. Mikill meirihluti landsmanna horfir á þennan árvissa sjónvarpsþátt og ræðir hann svo daginn eftir. 

Ætlar Vefþjóðviljinn nú að fara að tala um áramótaskaupið? Örlítið. Skaupið nú, eins og allra síðustu ár, hafði nefnilega við sig nokkuð, sem ekki fer alltaf mikið fyrir í Ríkisútvarpinu. Í því var ákveðið jafnræði. Hægri menn gátu glaðst yfir gríni um núverandi stjórnvöld, Steingrímur, Jóhanna og Jón Gnarr fengu öll einhvern skammt. Vinstrimenn gátu iðað af kæti yfir neikvæðum atriðum um forystumenn í sjávarútvegi. Bjarni Benediktsson fékk líka skammt. Svo að þessu leyti var eitthvað fyrir alla, hvað sem segja má svo um einstök atriði.

Það er prýðilegt að menn reyni að gæta einhvers jafnræðis að þessu leyti. Lengi var það ekki gert. Árum saman var stjórnarandstaðan á þingi alveg laus við háð í áramótaskaupum Ríkisútvarpsins. Það hefur breyst á allra síðustu árum og vonandi að framhald verði á því á komandi árum, óháð því hverjir verða í stjórn á hverjum tíma, þó eðli málsins samkvæmt hljóti stjórnvöld á hverjum tíma almennt að liggja betur við höggum háðfugla.

Eitt dæmi er þó eftirminnilegt um að höfundar áramótaskaups hæðist að stjórnarandstöðu en ekki stjórnvöldum. R-listinn vann mikinn sigur í borgarstjórnarkosningum en sjálfstæðismenn undir forystu Árna Sigfússonar töpuðu. Og hver var það þá sem var hæðst að í áramótaskaupi? Auðvitað Árni Sigfússon, en höfundar fundu enga ástæðu til að grínast með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það sem meira var, að þeir fengu Ingibjörgu Sólrúnu sjálfa til að leika í einu atriðinu þar sem gert var lítið úr Árna. Ekki er vitað til að í Ríkisútvarpinu hafi neinum þótt þetta vera smekklaust. 

En nú er sem sagt reynt að höfða bæði til hægri- og vinstrisinnaðra áhorfenda og er rétt að fagna því. Margt annað var líka skemmtilegt í skaupinu.