J óhanna Sigurðardóttir sagði erlendum fréttamönnum að á Íslandi yrði „efnahagslegt öngþveiti“ ef Icesave-lögunum yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var svona jóhönnuleg aðferð við að „gæta íslenskra hagsmuna“ og til að laða erlenda fjárfestingu til landsins. Steingrímur J. Sigfússon sagðist ítrekað ekki vilja „hugsa þá hugsun til enda“, hvað myndi gerast ef Icesave-ánauðin yrði ekki samþykkt á Alþingi fyrir næstu helgi, en auðheyrt var að fjármálaráðherrann taldi afleiðingarnar skelfilegar. Gylfi Magnússon sagði að Ísland yrði „Kúba norðursins“ ef Icesave II yrði ekki samþykktur. Þórólfur Matthíasson boðaði samfelldar hörmungar ef Icesave-samningarnir yrðu ekki samþykktir. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði að þeir stjórnarandstöðuþingmenn, sem börðust gegn Icesave II, væru að „tala Ísland niður í ruslflokk“, því ráðherrar og stjórnarþingmenn fullyrtu auðvitað líka að lánshæfismat landsins yrði lækkað ef það tæki ekki á sig Icesave reikningana.
Hafa fréttastofurnar farið yfir þessa sögu? Hefur verið fjallað, vandlega og rækilega, um hvað stjórnarherrarnir og frúrnar sögðu við landsmenn til að fá þá til að fallast á Icesave-ánauðina? Hefur verið farið yfir spádómana, sem ekki voru settir fram sem spádómar heldur sem fullyrðingar, studdar við fræðititla lofsunginna prófessora? Hafa ljósvakamiðlarnir, sem auðvitað eiga hjá sér stóryrðaviðtölin og fullyrðingarnar, tekið þau saman og gert úr vandaðan fréttaskýringaþátt?
Nei, þeim dettur það ekki í hug.
En það eru sagðar margar fréttir af einhverjum níræðum verkfræðingi og örsafnaðarleiðtoga einhvers staðar í Bandaríkjunum, sem trúði því að heimsendir yrði síðasta laugardag. Það er nú aldeilis hálfviti, ha ha ha. Svona eru þessir trúuðu Bandaríkjamenn, ho ho ho.
En hvernig fara íslenskir fjölmiðlar með sína eigin efnahagslegu heimsendaspámenn? Jú, þeir eru bara sömu fastagestirnir í umræðuþáttum og fréttatímum, þar sem þeir þykja alltaf jafn áhugaverðir.