Þriðjudagur 24. maí 2011

144. tbl. 15. árg.

Á AMX vefnum í gær mátti lesa frásögn af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af sjávarútvegsmálum. Þar fóru saman ósvífinn fjölmiðill og ósvífinn viðmælandi. Frétt Ríkisútvarpsins er svohljóðandi:

Smábátasjómenn á Bakkafirði segja strandveiðar og byggðakvóta skipta sköpum fyrir þá. Vopnafjarðarleiðin svokallaða hefur gert þeim kleift að gera út án þess að þurfa að leigja kvóta dýru verði af öðrum. Vopnfirðingar sömdu í vetur við smábátasjómenn sem landa afla í Bakkafirði og Vopnafirði. Gegn því að fá úthlutað byggðakvóta frá sveitarfélaginu greiða þeir gjald til sveitarfélagsins og fá í staðinn undanþágu frá reglum um byggðakvóta og þurfa ekki að landa tveimur tonnum af fiski gegn hverju tonni af byggðakvóta. Þannig losna þeir að leigja kvóta af öðrum.

Sjómenn á Bakkafirði segja að Vopnafjarðarleiðin hafi skipt sköpum fyrir þá. Nú geta þeir veitt án þess að þurfa að borga himinháa leigu fyrir kvótann. Birgir Ingvarsson, er einn þeirra. Hann hefur verið sjómaður alla tíð og var í óða önn að landa um þremur tonnum af þorski ásamt föður sínum og syni þegar fréttastofu bar að garði. Hann segir það hafa breytt miklu fyrir sig að þurfa ekki að leigja kvóta.

Nýtt kvótafrumvarp gerir ráð fyrir að fleiri sveitarfélög geti farið sömu leið og Vopnfirðingar. Þá er breytingunum ætlað að treysta strandveiðar í sessi. Birgir segir strandveiðarnar einnig hafa gefið góða raun.

AMX hefur þetta að segja um fréttaflutning Ríkisútvarpsins.

Það sem RÚV yfirsást er að Birgir Ingvarsson seldi útgerðarfélög sín, Fiskiðjuna Bjarg og Doddu ehf til GPG fiskverkunar fyrir hundruðir milljóna og með í kaupunum fylgdi kvóti. Nú er hann mættur aftur og krefst þess að ríkið taki aflaheimildir af þeim mönnum sem hann seldi til!

Birgir er mættur í RÚV fréttina í regnbuxum með axlabönd og segir fréttamanni RÚV af raunum smábatasjómanna. RÚV titlar hann svo „trillukarl“. Áhorfendur halda eflaust að þar sé gamall maður með pípu sem sé svo aumur að hann þurfi þjóðnýttan kvóta – en ekki maður sem seldi fyrirtæki fyrir hundruðir milljóna.

Hvers vegna blekkir RÚV áhorfendur með þessum hætti? Hvers vegna var ekki greint frá sölu Birgis á aflaheimildum og fyrirtækjum? Hvers vegna er ekki sagt frá því að hann hafi selt sig út úr greininni og vilji nú að ríkið taki aflaheimildir af þeim sem hann seldi til?

RÚV nær nýjum botni í umfjöllun sinni um kvótamál. Engin leið er að kenna vanþekkingu um þar sem íbúar á landsbyggðinni, sérstaklega fréttamenn, vita mjög vel um fyrirtækjaviðskipti í sínu kjördæmi. Þar fylgjast allir með öllu.

Þetta minnti Vefþjóðviljann á að hér má finna myndband þar sem segir af ævintýrum Reynis Traustasonar ritstjóra DV til láðs og lagar. Reynir hefur lengi sett sig á háan hest gagnvart þeim sem sækja sjóinn en seldu ekki kvótann sinn eins og sumir.