Laugardagur 31. desember 2011

Vefþjóðviljinn 365. tbl. 15. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

Nú þegar árið 2011 gengur sína leið, með sérhverri gleði sinni og þraut, hefur Vefþjóðviljinn tekið saman nokkur atriði sem óþarft er að hverfi með því. 

Metsölubók ársins: Gamlinginn sem skreið inn í stjórnarráðið og hvarf, gerði allt vitlaust á árinu. Og ekkert rétt. Bókaútgáfan Skjaldborg gaf út.

Trygging ársins: Undir lok ársins sagði Össur Skarphéðinsson að það væri sérstök trygging fyrir menn í Evrópusambandsviðræðunum að Jón Bjarnason sæti í ríkisstjórn og gætti þar að öllu. Sæti „í kjöltu“ utanríkisráðherrans. Á sama tíma var Össur bak við tjöldin að þvinga Jón úr ríkisstjórn.

Bragðarefur ársins: Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Útrásarhallarinnar Hörpu, notaði trixið sem einhver Andrés hafði kennt henni, og lék á blaðamenn sem ætluðu að spyrja hana um skemmtisiglingu útvalinna fyrirmenna við opnun Útrásarhallarinnar. Því miður hafði henni ekki verið kennt að leggja símann á, áður en hún færi að stæra sig af bragðvísi sinni við nærstadda.

Vanhæfni ársins: Páll Magnússon sótti um starf þrátt fyrir að hafa starfað með Valgerði Sverrisdóttur fyrir áratug. Það var meira en hófsamir þingmenn Samfylkingarinnar gátu þolað. 

Samstarfsmaður ársins: Össur Skarphéðinsson lýsti stjórnarfrumvarpi til nýrra fiskveiðistjórnarlaga sem „bílslysi“, en tók fram að hann sjálfur hefði auðvitað ekki lagt það frumvarp fram. Klúðrið væri því hjá samstarfsmönnum hans. Málið var reyndar stjórnarfrumvarp, samið eftir margra mánaða nána samvinnu þingmanna og ráðherra beggja stjórnarflokka, eins og vandlega var tekið fram í greinargerð þess, þótt fréttamenn hafi auðvitað ekki áhuga á að nefna slíkt.

Lánleysi ársins: Þegar landsmenn voru að gera upp við sig hvernig þeir ættu að greiða atkvæði um Icesave-ánauðina hrelldu Landsvirkjunarmenn fólk með því að yrði ánauðinni hafnað gætu allar dyr lokast á Íslendinga í alþjóðlegum lánastofnunum.

Lántakar ársins: Undir árslok tók Landsvirkjun 200 milljóna Bandaríkjadala alþjóðlegt fjölmynta sambankalán. Að láninu komu Barclays Capital, Citigroup, SEB, JP Morgan auk fleiri banka.

Lýðræðissinnar ársins: Þingmenn Hreyfingarinnar ræddu við forystu ríkisstjórnarinnar um að koma henni til bjargar ef á þyrfti að halda, svo henda mætti út ráðherrum sem ekki gengju í takt við forystu og flokksræði. Fyrir þessu setti Hreyfingin tvö skilyrði. Í fyrsta lagi vildi hún losna við forseta Alþingis, sem hafði gert það af sér að leyfa umræðu um tillögu sem Hreyfingin vill ekki að alþingi fái að greiða atkvæði um. Í öðru lagi vildi hún lýðræðisumbætur.

Auglýsendur ársins: Samtök iðnaðarins, sem vilja að Ísland gangi í erlent ríkjasamband, að erlendar reglur og tilskipanir verði æðstu lög á Íslandi, tekinn verði upp erlendur gjaldmiðill og að erlendir embættismenn ráði hér meiru en íslenskir, fóru í auglýsingaherferð fyrir jólin undir kjörorðinu „Veljum íslenskt“. 

Skoðanakannarar ársins: Fréttablaðið heldur áfram að gera skoðanakannanir þar sem orðinu „þjóðaratkvæðagreiðsla“ er jafnan hnýtt við þann valkost sem blaðið sjálft styður. Niðurstöðunni er svo troðið í aðrahverja bréfalúgu landsins, hvort sem húsráðanda líkar betur eða verr. 

Úrræði ársins: Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjóri á vegum Dags Eggertssonar, svaraði gagnrýni vegna fárra leikskólaplássa í Reykjavík með því að leggja til að karlmenn færu í ófrjósemisaðgerðir. Fjölmiðlamenn sáu ekkert athugavert við þetta, ekki frekar en við flest annað úr sömu átt. Stöð 2 hóf nokkurra daga umfjöllun um mögulegar ófrjósemisaðgerðir sem karlmenn gætu gengist undir.

Sturlun ársins: Formaður leikskólastarfsmanna sagði félagsmenn sína „sturlaða af reiði“ og félag þeirra ályktaði með sama orðalagi, eftir að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ákvað að hætta að greiða þeim einhverjar „neysluhlésgreiðslur“. Fjölmiðlar virtust ekki hafa áhyggjur af því að menn, sem „sturlast“ af reiði yfir slíku, sinni barnagæslu.

Undanbrögð ársins: Sveinn Arason ríkisendurskoðandi neitaði að stofnun sín ynni verk sem alþingi fól henni að sinna, og gaf þá skýringu að hann sjálfur, persónulega, væri vanhæfur í málinu. Hvorki fréttamenn né forsætisnefnd alþingis hafa enn kveikt á því, að stofnuninni ber að vinna verkið en Sveini að víkja sæti.

Þjóðaratkvæðagreiðsla ársins: Forsætisráðherra Grikklands ákvað að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um samning landsins við Evrópusambandið. Ríkisstjórn hans lýsti stuðningi við ákvörðunina. Þremur dögum síðar var Brusselstjórnin búin að setja hann af og enginn hefur nefnt þjóðaratkvæðagreiðsluna síðan.

Kosning ársins: Skömmu eftir að hún setti forsætisráðherra Grikklands af, skipti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um ríkisstjórn á Ítalíu.

Móðir ársins: Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, mætti móð af reiði í sjónvarpsviðtal og krafðist þess að Ögmundur Jónasson stöðvaði fyrirhugað skemmtikvöld á veitingastað í bænum. Hún gaf þá skýringu í fréttinni að nítján ára dóttir hennar hefði séð minnst á skemmtuna á facebook og æpt: „Mamma ætlarðu að láta þetta viðgangast?“

Gagnrýni ársins: Haldin var mikil alþjóðleg ráðstefna um efnahagsmál og komu til hennar fjölmargir heimsþekktir fyrirlesarar, þar á meðal að minnsta kosti tveir Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi vinstrigrænna gagnrýndi ráðstefnuna harðlega fyrir að þar væri hreinlega ekkert fjallað um kynjaða hagstjórn.

Gegnsæi ársins: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú til alvarlegrar skoðunar tillögu Michels Barniers, sem „fer með málefni innri markaðar“ í Evrópusambandinu, um að bannað verði að birta lánshæfiseinkunnir einstakra Evrópusambandsríkja eða annað „mat á greiðsluþoli einstakra ríkja“. 

Árangur ársins: Tilkynnt var að hætt hefði verið við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík og sex ára undirbúningsvinna væri þar með farin í súginn. Svo segja menn að ríkisstjórninni verði ekkert ágengt.

Kosningamistök ársins: Þinginu í Slóvakíu varð það á að hafna frumvarpi um björgunarsjóð Evruríkjanna. Þess vegna varð þingið að kjósa aftur nokkrum dögum síðar og náði þá réttri niðurstöðu. Sýnir þetta enn og aftur gríðarleg áhrif smáríkja í Evrópusambandinu eins og Baldur Þórhallsson og Eiríkur Bergmann Einarsson hafa margbent á.

Þráseta ársins: Birgir Jónsson var ráðinn forstjóri Iceland Express. Hann hætti eftir tíu daga í starfi. Það þótti Runólfi Ágústssyni, fyrrverandi umboðsmanni skuldara, sjúkleg þráseta í embætti.

Yfirstétt ársins: Birgitta Jónsdóttir krafðist þess að bandarískur dómstóll hafnaði kröfu um aðgang að tölvugögnum hennar, þar sem hún væri sko alþingismaður. 

Friðarsinnar ársins: Fyrsta „tæra vinstristjórnin“ ákvað að Ísland nýtti sér ekki neitunarvald sitt innan Nató þegar loftárásir bandalagsins á Lýbýu voru samþykktar. Og ekki heldur í þau tvö skipti sem þær voru framlengdar um nokkra mánuði. 

Ályktun ársins: Jóhanna Sigurðardóttir, sem gegnir embætti forsætisráðherra í ríkisstjórninni, sagði að það væri „í samræmi við ályktun alþingis“ sem ríkisstjórnin hefði ekki beitt neitunarvaldi innan Nato við loftárásum á Lýbíu. Það þurfti margra daga ábendingar til þess að „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins léti undan og segði fólki frá því að engin slík ályktun hafði nokkurn tíma verið samþykkt á alþingi.

Veiðiáhugamaður ársins: Jóhanna Sigurðardóttir, sem fréttamenn kalla forsætisráðherra, kvaðst vera mjög óánægð með að Barack Obama hefði fyrirskipað aðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga. Sagðist Jóhanna vera mjög reið, þar sem að við Ísland væru aðeins stundaðar vísindaveiðar. Flestir aðrir vita að hvalveiðar hafa verið stundaðar hér við land í atvinnuskyni frá árinu 2006. Fréttamenn gerðu engar athugasemdir við kenningar Jóhönnu, frekar en oft áður.

Þjóðaratkvæðagreiðslumaður ársins: Ögmundur Jónasson kvaðst mikill áhugamaður um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðin ætti að fá að kjósa um sem allra flest. Hann væri meira að segja að velta fyrir sér að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort nafngreindur Kínverji fengi að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Fulltrúalýðræðismaður ársins: Ögmundur Jónasson greiddi atkvæði gegn því á Alþingi að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um Icesave-ánauðina.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Sporasparendur ársins: Í stórmörkuðum má nú sjá fólk endasendast um með bjúgu og lifrarpylsupakka, að leita að skönnum, til að geta skannað inn strikamerki vörunnar og þannig komist að hvað hún kostar. Þetta gleður alla viðskiptavini, en eldra fólk þó auðvitað mest. Þetta er gert samkvæmt fyrirmælum vina okkar hjá Samkeppniseftirlitinu, sem alltaf eru að reyna að hjálpa þessum vitleysingum sem kallast borgarar í landinu og ekki kunna fótum sínum forráð.

Sektarar ársins: Neytendastofa, sem er ekki síður mikilvæg en Samkeppniseftirlitið, sektaði fimmtán reykvískar verslanir fyrir að vera ekki með nægilega mikla verðmerkingu á vörum sínum. Það er eins gott að eftirlitsmenn Neytendastofu rekist ekki á eftirlitsmenn Samkeppnisstofnunar, þegar þeir síðarnefndu eru að fjarlægja verðmerkinguna af vínarpylsupökkunum.

Menning ársins: Ríkisútvarpið tók fréttaviðtal við Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttir verkefnisstýru, sem sagði íslenska menningu vera nauðgunarmenningu. 

Nýsíslendingur ársins: Stöð 2 sló upp viðtali við Þórhildi Þorleifsdóttur sem sagði stjórnmálamenn vera ómögulega og alltaf í skotgröfum, og því þyrfti að fá nýtt framboð venjulegs fólks eins og hennar. Fréttamaðurinn sá ekki ástæðu til að nefna að Þórhildur er sjálf fyrrverandi alþingismaður.

Eiturbyrlarar ársins: Norðlenskar konur hugðust baka „möffins“ og selja til styrktar fæðingardeild sjúkrahússins. Heilbrigðiseftirlitið tók í taumana og skipaði þeim að fara í „viðurkennt“ atvinnueldhús.

Lagasetningarhótun ársins: Flugmenn hjá Flugleiðum tilkynntu að þeir myndu ekki taka að sér að vinna yfirvinnu. Katrín Júlíusdóttir, ósnertanlegur iðnaðarráðherra, lýsti því yfir að hún teldi koma til greina að setja lög til að banna aðgerðir flugmanna. Enginn fjölmiðill spurði hana hvernig þau lög ættu að hljóma, sem skipuðu flugmönnum að vinna yfirvinnu umfram samninga.

Blaðafulltrúi ársins: Spegillinn hélt áfram starfi sínu sem blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Depurð ársins: Steingrímur J. Sigfússon kvaðst vera „dapur“ yfir því að Jón Bjarnason viki úr ríkisstjórn. Steingrímur tók ekki fram hvort hann væri með sömu sorg í hjarta og yfir því að Geir Haarde hefði verið ákærður fyrir landsdómi. 

Stolt ársins: Sigmundur Ernir Rúnarsson kvaðst vera stoltur af því að hafa greitt atkvæði gegn ákæru á hendur Geir Haarde, enda hefði ákvörðun um hana verið röng og lítilmannleg. Hann styður að sjálfsögðu til ráðherradóms menn sem ákváðu að ákæra mann, með því sem Sigmundur Ernir sjálfur kallar „ranga og lítilmannlega“ ákvörðun.

Viðurkenning ársins: „Það er óeðlilega mikið reykt í íslenskum myndum, það er viðurkennt“, sagði Sigríður Ólína Haraldsdóttir lungnalæknir. Hún var ekki spurð hver hefði viðurkennt það og ekki heldur hvort persónur í kvikmyndum ættu allar að vera dæmigerðar staðalmyndir venjulegs fólks.

Þöggun ársins: Að morgni jóladags sögðu íslenskir fjölmiðlar ekki eina einustu frétt um „Eldfjall, fyrstu mynd Rúnars Rúnarssonar“ og sigurgöngu hennar um allan heim. Að vísu voru þennan morgun ekki fréttatímar og blöð komu ekki út, en þarna var engu að síður illa farið með góða mynd sem allt of lítið hefur verið fjallað um.

Mannréttindabaráttusigur ársins: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, þingfréttaritari Ríkissjónvarpsins, sagði þegar alþingi samþykkti ný lög um stöðu íslenskrar tungu, þar sem jafnframt var getið um táknmál heyrnarlausra, að þá hefði á þingpöllum verið fagnað „afar mikilvægum sigri í baráttu fyrir mannréttindum“.

Stuðningsmaður ársins: Til að hvetja til samþykktar frumvarpsins voru birtar blaðaauglýsingar þar sem ýmsir einstaklingar skoruðu á þingmenn að greiða því atkvæði. Meðal þeirra var Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, íklædd bol með áletruninni „Táknmál er töff“. Hún skoraði þannig á þingmenn að samþykkja tiltekið frumvarp, sagði svo frétt af atkvæðagreiðslunni í Ríkissjónvarpinu og lýsti niðurstöðunni sem afar mikilvægum sigri.

Klukka ársins: Einar maður, Einar. Nú er hann kominn í miðstjórn líka.

Öngþveiti ársins: Jóhanna Sigurðardóttir sagði mönnum að á Íslandi yrði „efnahagslegt öngþveiti“ ef Icesave-ánauðinni yrði hafnað.

Kínverji ársins: Jón Bjarnason var spurður um afstöðu sína til kaupa Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum. Jón kvaðst ekki þekkja „þennan Kínverja“, en bætti því við til skýringar að þeir væru „nokkuð margir, Kínverjarnir.“

Tilviljun ársins: Getur það verið tilviljun, að maðurinn sem ætlaði að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, hafi einmitt verið í hópi þeirra Kínverja sem Jón þekkir ekki? 

Samkeppni ársins: Stofnað var útibú frá Samfylkingunni undir vörumerkinu „Guðmundur Steingrímsson“, í þeim tilgangi að Samfylkingin geti áfram haldið völdum með atkvæðum þeirra sem vilja ekki kjósa Samfylkinguna aftur. Flokkurinn hefur ekki stefnu og ekki nafn, og efndi því til samkeppni um tillögu að nýju nafni. „Offramboðið“ hlýtur að liggja beint við.

Fundvísi ársins: Sjónvarpsstöðvar um allan heim sýndu frá brúðkaupi bresks prins og unnustu hans. Einni sjónvarpsstöð veraldar tókst að finna örfámenna samkomu breskra lýðveldissinna, sem komu saman til mótmæla, og birta viðtal við fulltrúa „mótmælenda“ í fréttatíma sínum. Vilja menn giska á hvaða sjónvarpsstöð á í hlut?

Viðmælendur ársins: Tveimur dögum fyrir Icesave-kosningu efndi Ríkissjónvarpið til kynningarþáttar um málið. Þar voru fengnir lögmenn til að ræða lögfræðileg álitamál sem því tengdust. Þrír hæstaréttarlögmenn sem barist höfðu fyrir samþykkt, og einn ungur héraðsdómslögmaður sem barðist fyrir synjun.

Varadekk ársins: Guðmundur Steingrímsson, Siv Friðleifsdóttir og Hreyfingin vilja öll forðast nýjar kosningar eins og heitan eldinn. Þau verða því til taks ef vinstristjórnin þarf. En öll eru þau mikið á móti klækjastjórnmálum enda fólk nýs tíma.

Mótleikur ársins: Þann 21. febrúar spurði Morgunblaðið fjármálaráðuneytið um kostnað vegna starfa Icesave-samninganefndar Íslands, þar á meðal um launakostnað nefndarmanna. Þann 24. febrúar lagði Björn Valur Gíslason, hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar, fram fyrirspurn á alþingi um sama mál. Neitaði fjármálaráðuneytið því næst að svara blaðinu og gaf þá skýringu að þingmönnum væri að sjálfsögðu svarað á undan fjölmiðlum. Svar fjármálaráðherra til þingmannsins var svo sett á dagskrá alþingis 11. apríl, sem fyrir hreina tilviljun var fyrsti starfsdagur þingsins eftir Icesave-kosningu.

Smákarlar ársins: Herfræðingarnir í Áfram-hópnum létu gera auglýsingu þar sem hákarl var í þann veginn að éta íslensku þjóðina, svona til að sýna mönnum hvernig færi ef þeir tækju ekki Icesave-ánauðina á sig. 

Vinnubrögð ársins: „Sumt innsláttarfólkið stundaði „skapandi“ úrlestur, giskaði á tölur, og breytti jafnvel svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta tala var „misskráð“ hjá kjósanda og tók innsláttarfólkið sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu“, sagði meðal annars í sláandi skýrslu yfirkjörstjórnarmanns í Reykjavík til allsherjarnefndar alþingis, um vinnubrögð við framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings. Ríkisfjölmiðlarnir og aðrir Samfylkingarmiðlar höfðu lítinn áhuga á slíkri skýrslu.

Opinberun ársins: Kosningin til stjórnlagaþings var haldin ótrúlegum og alvarlegum ágöllum. Hæstiréttur átti engan annan kost en að ógilda kosninguna. Í framhaldinu ákváðu allnokkrir menn að opinbera fullkomið skilningsleysi sitt á kosningareglum og lögum, þegar þeir reyndu að sýna fram á að ákvörðun réttarins hefði verið röng. Að sjálfsögðu fengu slíkir menn að einoka fjölmiðlaumræðuna og mala gagnrýnislaust í viðtalsþáttum.

Viðbrögð ársins: Þegar Hæstiréttur einróma ógilti kosningu Jóhönnu Sigurðardóttur til stjórnlagaþings, á grundvelli ótal alvarlegra galla á þinginu, hrópaði forsætisráðherra lýðveldisins einfaldlega á alþingi að „íhaldið“ væri „skíthrætt“.

Svipting ársins: Jóhanna Sigurðardóttir bætti því við að „þjóðin“ yrði sko ekki svipt stjórnlagaþinginu sínu. Að vísu höfðu tæplega 70% kosningabærra manna ekki séð ástæðu til að taka þátt í kosningu til stjórnlagaþingsins, en eins og venjulega þá vita Samfylkingarmenn ekki um neina aðra þjóð í landinu en þá sem er sammála þeim hverju sinni.

Dætur ársins: Nokkrir einstaklingar voru ákærðir fyrir að hafa ráðist inn í alþingi. Vinstrimenn ærðust yfir málinu. Kastljós Ríkissjónvarpsins kynnti sérstaklega að haldnir yrðu tónleikar til styrktar hinum ákærðu mönnum og söngkona kom í þáttinn með dætrum sínum og söng lag, hinum ákærðu til stuðnings. Fékk hún svo að tala og tala fyrir málstað þeirra, frammi fyrir brosandi umsjónarmanni sem í lokin þakkaði söngkonunni og hennar „frábæru dætrum“ kærlega fyrir.

Fórnfýsi ársins: Ólafur Ragnar Grímsson sagði að þeir Jóhann Hauksson væru vonandi báðir menn til að viðurkenna að það, sem Jóhann Hauksson hefði fullyrt að myndi gerast, ef Icesave-II yrði hafnað, hefði bara alls ekki gerst. Svona er Ólafur Ragnar alltaf stór í sniðum. Sá er ekki of lítill til að viðurkenna mistök Jóhanns Haukssonar.

Sérfræðingur ársins: Arion-banki hélt kynningarfund um Icesave og fékk þar sem frummælanda mann að nafni Andrew Speirs. Þann mann kynnti bankinn með þessum hætti: „Andrew Speirs, framkvæmdastjóri hjá ráðgjafarfyrirtækinu Hawkpoint. Hann hefur 24 ára reynslu af fjárfestingarbankastarfsemi þar sem hann starfaði hjá Morgan Grenfell, Deutsche Bank og Hawkpoint. Sérsvið hans er að veita fjármálaráðgjöf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu og skuldaaðlögun fyrirtækja, kröfuhafa og stjórnvalda um víða veröld.“ Bankinn lét þess hins vegar ekki getið í kynningu sinni að Andrew Speirs var ráðgjafi samninganefndar Íslands og að það voru einnig tveir félagar hans hjá „ráðgjafarfyrirtækinu Hawkpoint.“

Fiskæta ársins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greindi frá því á alþingi að hann hefði verið heima hjá sér að borða fisk, þegar fréttir bárust af því að búið væri að taka Icesave-máið út úr fjárlaganefnd og nú skyldi afgreiða það á þingi. Með frétt af ummælum hans birtist mynd þar sem Sigmundur Davíð lýsti fisknum fyrir þingheimi, og reyndist hann hinn myndarlegasti.

Umfjöllun ársins: Síðasti maður sem Kastljós Ríkissjónvarpsins fékk til að ræða Icesave III, áður en það var samþykkt á alþingi, var Bjarni Benediktsson, eftir að hann hafði ákveðið að styðja málið. Undirskriftasöfnun, sem þá gekk í landinu til stuðnings þjóðaratkvæði um málið, þótti til dæmis ekki mjög áhugaverð. Tvö síðustu kvöldin fyrir samþykkt alþingis ræddi Kastljósið um erfðabreytt bygg. 

Rústir ársins: Lísa Pálsdóttir, þáttagerðarmaður á Rás 1, tók langt viðtal við konu sem lengi hefur dvalist í Kína. Sú kona taldi Kínverja hugsa mikið um umhverfismál og vera áhugasama um sólarorku. Það vakti Efstaleitishugleiðingar hjá Lísu: „Þá verður manni kannski svolítið hissa þegar maður hugsar um mannréttindi á móti. Þeir hafa áhuga á umhverfinu en mannréttindi eru líka eitthvað sem fólk hefur áhyggjur af í Kína. Ekki þar fyrir, að mannréttindamál eru í rúst í mörgum stöðum í heiminum, meðal annars í Bandaríkjunum.“ Æjá, mannréttindin eru áhyggjuefni í Kína, en þau eru hreinlega í rúst víða, meðal annars í Bandaríkjunum. Enda eru Bandaríkjamenn sífellt að reyna að smygla sér í gámum í kínverska frelsið. Svona er Efstaleitisheimsmyndin í hnotskurn.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.