Vefþjóðviljinn 121. tbl. 20. árg.
Í hvaða landi Evrópu ætli flestir séu hugfangnir af „Panamaskjölunum“? Ekki miðað við höfðatölu heldur bara einfalda talningu þeirra sem hugsa um þau dag og nótt, sannfærðir um að „aflandsfélag“ sé efsta stig mannvonskunnar? Að þeir sem hafi stofnað félag utan um ein viðskiptaáform fyrir áratug, sem ekkert hafi svo orðið úr, hljóti að vera stórspilltir níðingar.
En hvað er hægt að gera, vegna hins mikla óréttlætis sem felst í því að fólk megi stofna félög í öðrum ríkjum og þar á meðal þeim sem búa við aðrar reglur en hér? Hvernig á að koma í veg fyrir að óprúttnir menn noti þessa aðferð til að græða á kostnað annarra?
Eitt af því sem menn geta gert er að færa ýmsar reglur, sem breytt var í framhaldi bankahrunsins, í fyrra horf. Þótt hugsanlega hafi verið ástæða til ýmissa tímabundinna aðgerða vegna bankahrunsins þá er efnahagslífið fyrir löngu komið í mun eðlilegra ástand.
Eitt af því sem ætti að skoða er sá tími sem kröfur fyrnast á við gjaldþrot. Hann var skyndilega styttur úr tíu árum í tvö. Þeir sem vilja koma eignum undan þurfa því aðeins að halda þeim utan sjónarhringsins í tvö ár og geta svo komið með þær aftur. Hverjum halda menn að þessi breyting gagnist nú? Venjulegu fólki sem fór illa út úr bankahruninu? Harðduglega iðnaðarmanninum sem fór í þrot sumarið 2009 þegar verkefnastaðan hvarf?
Önnur breyting sem gerð eftir bankahrunið var nefnt fjárfestingarleið, og veitti mönnum í raun afslátt af íslenskum krónum ef þeir komu með mikið magn erlends gjaldeyris inn í landið. Það var kannski skiljanlegt í upphafi, þegar menn vissu ekki hversu alvarlegar afleiðingar bankahrunsins yrðu og hvort raunverulegur gjaldeyrisskortur yrði, að nota slíka aðferð til að afla landinu erlends gjaldeyris. En það var allt of langt gengið að láta slíka reglu gilda árum saman.
Þótt bankahrunið geti útskýrt og afsakað margar tímabundnar breytingar á því sem eðlilegt er, þá er engin ástæða til að gera þær tímabundnu breytingar varanlegar. Það á bæði við um margar reglur sem breytt var í kjölfar bankahrunsins en einnig fjölmargt annað. Bæði í fjölmörgum lögum og reglum og í mörgu því sem viðgengst í stjórnmálaumræðunni er fyrir löngu kominn tími til að kveðja bankahrunsárin.