Áfimmtudagskvöldið var það rætt í þúsundasta sinn í íslenskum fjölmiðlum hvort flugfélag nokkurt hefði gefið í skyn með auglýsingum sínum erlendis að hingað væri gott að koma til að eiga fremur náin en stutt kynni við íslenskar konur. Áður en þessi umræða fór fram á Stöð 2 á fimmtudagskvöldið hafði flugfélagið borið slíkar kenningar til baka níuhundruðníutíuogníusinnum.
Annað hvort hafa þessar mótbárur flugfélagsins farið framhjá Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur formanni Kvenréttindafélags Íslands eða hún ekki kært sig um að hlusta á þær því þarna var hún mætt á Stöð 2 og fullyrðingaflaumurinn stóð upp úr henni um að flugfélagið hefði lítilsvirt íslenskar konur að því er virðist með því að gera út á meint lauslæti þeirra. Þessu til stuðnings hafði hún tvær auglýsingar flugfélagsins um ferðir til Íslands. Önnur var notuð í Bretlandi og sýndi ungmenni í Bláa lóninu með leir í andlitinu undir yfirskriftinni „Fancy a Dirty Weekend?“. Þeir sem helst voru lokkaðir til landsins með þessari auglýsingu munu hafa verið eldri hjón og mun meðalaldur þeirra hafa verið um 65 ár. Hin auglýsingin var birt í Skotlandi eftir að flugfélagið breytti áætlun sinni en það þýddi að farþegar frá Glasgow á leið til Bandaríkjanna þurftu að bíða í nokkrar stundir á Íslandi. Þeim var því boðið upp á „Trip with a Dip“. Það er að segja, þeim var boðið að dýfa sér í Bláa lónið á meðan beðið væri eftir flugvélinni vestur um haf. Og hver var glæpurinn að mati formanns Kvenréttindafélags Íslands. Jú, í auglýsingunni mátti sjá flugfreyju félagsins bera fram drykk í lóninu!
Í lok umræðunnar á Stöð 2 var formaður Kvenréttindafélagsins spurður hvort félagið myndi kæra auglýsingar flugfélagsins og taldi hann það afar líklegt þótt stjórn félagsins ætti eftir að ræða málið. Þá kom jafnframt í ljós að formaður Kvenréttindafélagsins hefur ekki haft fyrir því að kynna sér auglýsingar flugfélagsins í heild sinni þótt hann hóti málsókn vegna þeirra. Auglýsingar flugfélagsins munu skipta hundruðum síðustu árin. En formaður Kvenréttindafélagsins hyggst nú hefja málaferli á hendur flugfélaginu og mun vonandi sjá til þess að einhver öflug og góð lögmannsstofa taki það mál að sér. Má þar til dæmis mæla með lögmannsstofu Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, en svo vel vill til að hún er einmitt staðsett í sama húsi og Kvenréttindafélag Íslands. Ætti því að vera skammt að fara sem er mikilvægt því eflaust þarf Kvenréttindafélagið að leita mjög til lögmanns síns í þessu máli. Fyrsta spurningin sem félagið mun spyrja lögmann sinn verður sennilega sú hvernig auglýsingar, sem aldrei eru birtar á Íslandi, varða við íslensk lög. Við því mun lögmaðurinn að sjálfsögðu eiga einfalt svar.