Þannig að þeir sem tóku mark á Ólafi Ragnari árið 2004, og töldu hann segja sannleikann um ákvörðun sína, þeir telja væntanlega augljóst að hann synji ríkisábyrgðarlögunum staðfestingar. Þau lög er líka erfiðara að snúa til baka með, ólíkt útvarpslagabreytingunni sem hefði mátt fella úr gildi hvenær sem var, eins og blasti við öllum.
En vill Vefþjóðviljinn að Ólafur Ragnar neiti að skrifa undir ríkisábyrgðarlögin? Nei, raunar ekki. Synjunarvald forsetans er eins og annað vald forseta í höndum ráðherra, og ef ráðherra leggur til við forseta að samþykkt lög skuli staðfest, þá gildir sú tillaga en ekki persónulegur vilji forsetans.
H inn ágæti blaðamaður Kolbrún Bergþórsdóttir, skrifar fjölmiðlapistil í Morgunblaðið í dag og fjallar um þátt Penns og Tellers á Skjá einum. Kolbrún segir að þeir félagar séu skemmtilegir og hugmyndaríkir, þó þeir gangi „langt í því að ögra og hneyksla. Meira að segja Guð fær ekki að vera í friði fyrir þeim. Vitanlega þolir Guð það, rétt eins og allt annað, en veikburða mannlegar sálir taka slíka aðför að almættinu vissulega svolítið nærri sér.“
Já Kolbrún hefur ekki áhyggjur að því þó að þessir menn sjái Guð ekki í friði og finnst litlu skipta þó „veikburða mannlegar sálir“ taki „aðför að almættinu vissulega svolítið nærri sér“. En, þessi ágæti blaðamaður, hvað hefur hún aftur skrifað margar greinar, sérstaklega til að ávíta harðlega þá sem henni þykir tala of harkalega um Evrópusambandið? Getur verið að hún sé viðkvæmari fyrir hönd síns jarðneska almættis en ýmsir aðrir eru vegna hins himneska?