Þriðjudagur 1. september 2009

244. tbl. 13. árg.

Þ ríhöfði, það sérkennilega bandalag íslenskra stjórnmála sem staðið hefur saman sem einn þurs undanfarna mánuði, hélst þétt í hendur við að koma Icesave-ánauðinni gegnum alþingi. Þríhöfði þessi, Samfylkingin, forysta vinstrigrænna og Morgunblaðið, reyndu ákaft að sannfæra þingmenn og aðra landsmenn um að sjálfsagt væri að samþykkja frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna, og það löngu áður en nokkrir „fyrirvarar“ voru nefndir.

Fyrirvararnir komu ekki fyrr en síðar, þegar ljóst varð að örfáir þingmenn vinstrigrænna væru ekki tilbúnir að samþykkja málið án þeirra, og ekki reyndist unnt að treysta á nýtt liðhlaup úr stjórnarandstöðunni, svo stuttu eftir Evrópusambandsinngöngubeiðnina. En Þríhöfði, Samfylkingin, forysta vinstrigrænna og Morgunblaðið þurftu enga fyrirvara. Við ráðum við Icesave, stóð yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins löngu áður en nokkur fyrirvari hafði verið settur.

Þannig var barist allan tímann sem verið var að nudda Icesave-ánauðinni gegnum alþingi. Rökum með íslenskum sjónarmiðum var vísað á bug rökstuðningslaust, en sjónarmiðum andstæðinganna jafnan hampað. Þegar málið var svo komið í gegn, með „fyrirvörum“ , sem var skárra að fá en ekki, þó þeir breyti litlu um það sem mestu skiptir, gengu Jóhanna og Steingrímur J. skælbrosandi út úr þinghúsinu en þriðja höfuð þessa ólánlega bandalags sagði frá málinu undir hlutlausri fyrirsögn: „Icesave-fyrirvarar sem tryggja hag landsins“. Daginn eftir birtist opnu-hetjuviðtal við Guðbjart Hannesson formann fjárlaganefndar, sem formann nefndarinnar sem samdi „fyrirvarana“ sem plötuðu frumvarpið inn á þingmenn.

Þegar umræðu var lokið og stjórnarandstaðan hafði hleypt málinu í gegn – því hún hefði getað haldið uppi baráttu gegn því lengi enn og verið enn að – var næsta verk Steingríms J. að halda á flokksráðsfund vinstrigrænna og halda þar eina af sínum heiftarræðum út í Sjálfstæðisflokkinn, sem þá var nýbúinn að skera stjórnina hans niður úr snörunni. Stóryrði Steingríms féllu svo í þakkláta jörð á fréttastofu Ríkisútvarpsins sem sló þeim upp sem miklum tíðindum.

Stjórnarandstaðan fær ekkert nema svei-þér frá þessari ríkisstjórn. Þegar vinstriflokkarnir náðu völdum í minnihlutastjórn, vegna fljótfærni Framsóknarflokksins, þá fengu framsóknarmenn tómar svívirðingar, hvenær sem þeir svo mikið sem hikstuðu, eins og best sást þegar einn þingmaður Framsóknarflokksins vildi skoða seðlabankastjórafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur í einn aukadag. Eftir kosningar er ekkert hlustað á þá og í engu njóta þeir þess að hafa leitt vinstriflokkana til valda.

Nú fær stjórnarandstaðan ekki neitt fyrir þjónkun sína við ríkisstjórnina. Forystumenn ríkisstjórnarinnar ganga meira að segja gólandi um þinghúsið þegar fréttist af mönnum í þeirra eigin röðum sem ekki ætla að makka rétt. Stjórnarandstöðuþingmenn eru stundum notaðir ef nauðsyn krefur, en um leið og búið er að fá atkvæðið þeirra, verða þeir einskis virði á ný. Enda stýrir nú ríkisstjórn frægasti hurðaskellir íslenskra stjórnmála.