Þriðjudagur 13. maí 1997

133. tbl. 1. árg.

Í gærkvöldi var sýndur þáttur í Ríkissjónvarpinu undir nafninu „Heimur á heljarþröm“ þar…
sem kynnt voru löngu úrelt sjónarmið umhverfisofstækismanna um að maðurinn sé búinn að setja hálsinn á höggstokkinn með umgengni sinni á jörðinni. Meðal þeirra sem sýndur var sem hetja í þessum þætti var Paul Ehrlich, liffræðiprófessor við Stanford háskóla og höfundur metsölubókarinnar „The Population Bomb“ sem kom út árið 1968. Þar spáði hann hundruðum milljóna manna hungurdauða á áttunda áratugnum og að náttúruauðlindir gengju fljótlega til þurrðar. Raunin varð allt önnur. Matvælaframleiðsla hefur vaxið hraðar en fólksfjöldi og verð á hveiti, hrísgrjónum og annarri undirstöðufæðu hríðfallið og framboð nær allra annarra náttúruauðlinda hefur vaxið hraðar en eftirspurnin og verð þeirra því einnig lækkað. Lífslíkur fólks hafa einnig stórbatnað. Allt er þetta því að þakka að maðurinn hefur að stórum hluta sigrast á náttúrulegum fyrirbærum eins og uppskerubresti, þurrki, kulda, skordýrum, rándýrum, farsóttum, pestum, sóttmenguðu drykkjarvatni, skemmdum matvælum og almennum óþrifum.

Annar falsspámaður sem kynntur var sem hetja í þessum þætti…
heitir Rachel Carson en hún ritaði ritaði bókina „The Silent Spring“ árið 1962 og spáði því að ekki liði á löngu þar til vori fylgdi enginn fuglasöngur! Af þeim 40 fuglategundum sem Carson taldi að maðurinn væri að útrýma árið 1962 voru árið 1995 19 tegundir í góðu jafnvægi, 14 tegundir að fjölga sér og 7 tegundir í niðursveiflu. Carson hafði sérstaka andúð á DDT og öðru skordýraeitri sem reyndist ómetanlegt í baráttunni við skordýr og þá sjúkdóma sem þau bera með sér. DDT getur vissulega verið skaðlegt ef menn eta það eins og pönnukökur og við sérstakar aðstæður í náttúrunni en ekkert í líkingu við hrakspár Carsons. Í þættinum var fuglafræðingur fenginn til að tárfella yfir því að DDT hefði eyðilagt eggjaskurn sjaldgæfra fuglategunda. Honum virtist standa nákvæmlega á sama um að DDT hefði bjargað tugum milljóna manna frá malaríu á Indlandi og víðar. Hvurslags fólk er það sem tekur eggjaskurn fram yfir mannslíf?