Hvernig stendur á því að nú til dags geta velflestir krumpað bjórdós saman með annarri hendinni en um 1960 var það aðeins á færi mestu kraftajötna? Aukin aðsókn að líkamsræktarstöðvum skýrir þetta ekki og ekki heldur aukin neysla skyndibitafæðis. Ekki heldur aukin bjórdrykkja og sælgætisát. Ástæðan er að dósirnar eru nú gerðar úr áli en ekki stáli eins og fyrir 40 árum. Að auki hefur smám saman tekist að minnka álmagnið í dósunum. Vegna þessara framfara í dósaframleiðslu notar bandaríski bjóðframleiðandinn Anheuser-Busch 100 þúsund tonnum minna af áli á ári.
Framfarir af þessu tagi – eða betri nýting náttúruauðlinda – verða vegna þess að fyrirtæki hafa hag af því. Anheuser-Busch fór ekki að nota ál í staðinn fyrir stál og ekki þynnra ál fyrir þykkara vegna þess að það væri fyrirtækinu metnaðarmál að allir viðskiptavinir þess gætu kramið dósina í hendi sér heldur vegna þess að það er ódýrara. Hráefnið er ódýrara, framleiðslan er ódýrari og flutningar ódýrari.
Atvinnulífið, ekki síst hin ægilegu stórfyrirtæki, fær það oft óþvegið frá umhverfisverndarsinnum. Enda liggur það í hlutarins eðli að atvinnustarfsemi hefur áhrif á umhverfið. Þó eiga framfarir í atvinnufyrirtækjum stærstan þátt í því að létta álagi af umhverfinu. Jarðolía kom í stað dýrafitu í lampa og svo ljósaperan. Nýjar útgáfur af ljósaperunni hafa minnkað orkuþörf hennar jafnt og þétt og sú þróun heldur vafalítið áfram. Kol leystu viðinn úr skógum heimsins af í ofnum fólks og gas tók við af kolunum þegar mönnum þótti nóg um brennisteinsútblásturinn frá kolabrunanum. Ótal nýjar aðferðir við orkuframleiðslu bíða þess að hugvitsamir athafnamenn geri þær að samkeppnishæfum kosti við olíu, kol og gas. Ljósleiðarar úr 30 kg af sandi flytja meiri upplýsingar en 1.000 kg af koparþráðum. Venjuleg heimilistölva geymir meira af upplýsingum en bestu bókasöfn fyrri alda. Fæstar þessara breytinga voru fyrirsjánlegar og hefðu raunar hljómað sem tómir órar aðeins nokkrum árum áður en þær áttu sér stað.
Umhverfisverndarsinnar hafa lengi haft tilhneigingu til að spá öllu á versta veg. Að hluta til er það vegna þess að jákvæðar spár um framvindu mála vekja litla athygli og henta því illa til fjáröflunar fyrir samtök þeirra. En þeim hættir einnig til að gleyma því að framfarir og nýjungar breyta öllum forsendum í heimsendaspánum.