M ættu Sigmundur Ernir Rúnarsson og Steingrímur J. Sigfússon eiga hlut í gagnaveri? Þetta er ekki spurning út í loftið því undanfarna daga hefur því verið haldið mjög stíft fram að Björgólfur Thor Björgólfsson megi ekki koma nálægt gagnaveri suður með sjó vegna aðkomu sinnar að Icesave reikningum Landsbankans, reikningunum sem ríkisstjórnin vill að Íslendingar gerist ábyrgðarmenn fyrir.
Ekki er þó vitað til þess að Björgólfur Thor vilji að íslenska ríkið sitji uppi með Icesave skuldina. En það vilja hins vegar Sigmundur Ernir, Steingrímur J. Sigfússon og flestir aðrir þingmenn Samfylkingar og VG. Sigmundur Ernir vill kenna íslenskum börnum „mannasiði“ með því að leiða Icesave-ánauðina í lög. Steingrímur J. er helsti ábyrgðarmaður þess að pólitískar samningaviðræður við Breta og Hollendinga breyttust í smiðju þar sem gerðir voru glæsilegir skuldahlekkir á Íslendinga.
S íðustu ár var því oft haldið fram að ríkissjóður Íslands væri orðinn nær skuldlaus og sérstaklega að erlendar skuldir væru allar greiddar. Stundum var þó nefnt í því sambandi að ríkið bæri ábyrgð á ýmsum skuldbindingum eins og lífeyri starfsmanna sinna og óbeint á lánum einstakra ríkisfyrirtækja. Aldrei var það nefnt einu orði að einkafyrirtæki gætu hlaðið upp skuldum upp á mörg hundruð eða þúsund milljarða króna á ábyrgð ríkisins. Það var bara nákvæmlega enginn sem hélt því fram að ríkissjóður Íslands gæti orðið gjaldþrota á innlánum í einkabanka með íslenska kennitölu. Það flaug bara engum í hug. Jafnvel blaðið sem hafði það að leiðarljósi að „pönkast“ á aðaleiganda Landsbankans með það að markmiði að „taka hann niður“ nefndi það aldrei að bankinn væri hugsanlega með ríkisábyrgð á viðskiptum sínum við erlenda fjármagnseigendur, slík fjarstæða var þessi hugmynd.
Og þessi ríkisábyrgð á starfsemi gjaldþrota einkafyrirtækis er ekki enn til staðar. Hún gæti hins vegar orðið það nú á milli jóla og nýárs. Það verður alfarið og eingöngu á ábyrgð þeirra alþingismanna sem hana leiða í lög.