Miðvikudagur 23. desember 2009

357. tbl. 13. árg.

N ú á aðventunni er Ellert B. Schram mættur til leiks með heilræði og hvatningu til íslensku þjóðarinnar. Það er grein eftir hann í Fréttablaðinu í dag sem ber yfirskriftina: Áfram svo, koma svo. Þetta er herhvötin sem ég þekkti í íþróttunum í gamla daga, þegar á móti blés, segir Ellert. Og svo kemur sóknaráætlun Ellerts:

Icesave-málið er stóra þrætueplið. Auðvitað er ég í hópi þeirra sem vildu losna undan þessu skuldafargi. En hvað ef við neitum að borga eða semja? Hver er valkosturinn? Hvað þá?

Er það leið til endurreisnar að neita að horfast í augu við þann veruleika að alþjóðasamfélagið segi lok, lok og læs ef við neitum að borga eða semja? Traust til Íslands þverr og lánalínur lokast. Hvað þýðir það? Áframhaldandi gjaldeyrishöft, veiking krónunnar, annað gengisfall, vaxandi atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og hugsanlega gjaldþrot ríkisins og þar með þjóðarinnar.

Svo þarf varla að minnast á það, að núverandi ríkisstjórn hlýtur að segja af sér, ef málið er fellt eða ef forseti Íslands vísar því til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þurfum við á því að halda að hér fari allt í lamasess og biðstöðu meðan beðið verður eftir nýjum kosningum og nýrri ríkisstjórn?

Áfram svo, koma svo, ætlar þjóðin ekki fara játa sig sigraða? Andstæðingarnir eru búnir að lýsa því yfir að við eigum að skíttapa, ekki förum við að malda í móinn? Áfram svo, koma svo, rennum af hólmi. Ekki viljum við fá þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég hef að vísu alltaf verið fylgjandi, um svona stórmál? Viljum við kannski að ríkisstjórnin hrökklist frá og skattahækkanir, vaxandi atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og gengisfallið fari í lamasess og biðstöðu?

E n það er ekki nóg með að Ellert B. Schram fyrrverandi forseti Íþróttasambands Íslands og alþingismaður sé sjálfur að skrifa í blöðin um þessar mundir. Ellerts nýlega var minnst í blaðagrein fyrir það þegar hann tók að sér að skipta væntanlegum tekjum af lottóinu þegar þingið fjallaði um þá starfsemi. Eiður Guðnason fyrrverandi alþingismaður sagði frá lagasetningu um lottó árið 1986, í grein í Fréttablaðinu 2. desember 2009.

Oddur Ólafsson, læknir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði upphaflega flutt þetta mál. Ætlan Odds var sú að Öryrkjabandalagið eitt nyti góðs af talnagetraunum. Oddur var alla tíð öflugur talsmaður öryrkja á Alþingi. Þá brá svo við að Ellert B. Schram, sem þá var þingmaður utan flokka en jafnframt forystumaður í Íþróttahreyfingunni, stöðvaði málið með málþófi í neðri deild þingsins.

Ellert kom því til leiðar að skorið var af mögulegum tekjum öryrkja af lottóinu og þær færðar honum sjálfum og félögum hans í íþróttahreyfingunni. Ellert B. Schram hefur auðvitað alla tíð kynnt sig sem mikinn áhugamanna um kjör öryrkja. Þegar hann hafði lokið sér af með málþófi og blygðunarlausu hagsmunapoti fyrir íþróttahreyfinguna varð niðurstaða Alþingis sú að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands fengu 60% af lottóhagnaðinum en Öryrkjabandalag Íslands 40%.

Eða svo allir skilji stöðuna að leik loknum: Ellert 3 – öryrkjar 2.