Það fór til dæmis ekki á milli mála að hann var aldrei áfjáður í að hækka vexti en eftir umræður og rökræður þar sem niðurstaðan varð vaxtahækkun stóð Steingrímur fast með þeim ákvörðunum Seðlabankans. |
– Birgir Ísleifur Gunnarsson lýsir samstarfi við Steingrím Hermannsson er þeir voru seðlabankastjórar, Fréttablaðið 6. febrúar 2010. |
Í allri umræðunni um meint frjálsræði á fjármálamörkuðum virðist það vera aukaatriði að ríkisvaldið stýrir peningamálum víðast. Grunnurinn sem fjármálakerfi heimsins hvíla á eru ríkisreknir seðlabankar. Það sitja einhverjir embættismenn, vafalaust ágætis menn að jafnaði, og ákveða verð á þessari grunneiningu fjármálamarkaða og stýra framboði á henni. Já það eru embættismenn sem ákveða hvað það kostar fyrirtæki að reisa nýja verksmiðju fyrir lánsfé, hvað það kostar verktaka að kaupa lóð og efnivið í hús fyrir lánsfé, hvað það kostar fjölskyldu að endurnýja bílinn fyrir lánsfé.
Stundum setja embættismennirnir fé hreinlega á útsölu. Þeir telja sig ef vil vill þurfa að bregðast við samdrætti, hafa fengið ótíðindi úr einhverju Excel-skjalinu, stjórnmálamennirnir sem ráða þá í vinnu vilja slá á atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins af stað fyrir kosningar. Nú eða þeir eru bara aldrei áfjáðir í háa vexti. Afleiðingarnar eru alltof kunnar þótt mönnum gangi stundum erfiðlega að setja þær í samhengi. Húsnæðisbólur, verðbréfabólur, netbólur. Þessar bólur springa.
Hvernig þætti mönnum að ríkið tæki að sér að ákvarða verð og framboð á öðrum varningi, til dæmis súkkulaði, skyrtum og reiðhjólum? Þetta hefur víða verið reynt með svona almennt leiðinlegum afleiðingum; allt frá pólitískri spillingu og biðröðum til hungurs og skorts.
Hví þykir mönnum þá svo sjálfsagt að ríkið ákveði verðið á peningum?