Laugardagur 18. apríl 2009

108. tbl. 13. árg.

K osningaspuninn er kominn á fulla ferð. Nú slær Fréttablaðið því upp að miklar líkur séu á því að næsta kjörtímabil verði stutt, þing verði rofið fljótlega og stjórnarskránni breytt. Þetta er tómur spuni, settur fram í sérstökum tilgangi. Hver er hann? Jú, að segja þeim stóra hópi sjálfstæðismanna og annarra borgaralega þenkjandi manna, sem þessa dagana er mjög nálægt því að láta réttmætan pirring sinn á frammistöðu sinna manna undanfarið verða til þess að þeir kjósi ekki gegn yfirvofandi vinstristjórn. Skilaboðin eru þessi: Hafið engar áhyggjur, skiliði bara auðu eins og þið eruð að tala um, vinstristjórnin myndi ekki sitja lengi. – Þetta er hins vegar heilaspuni. Vinstristjórnin myndi sitja í fjögur ár, skattleggja menn norður og fara með launin niður.

  • „Ég lærði það dálítið snemma í stjórnmálum að sumir sem eru mikið á yfirborðinu, þeir reyna að koma svona merkimiða á andstæðinga sína“. Á þessa leið svaraði Steingrímur J. Sigfússon þegar Sölvi Tryggvason spurði hann að því í einkaviðtali sem Skjár 1 sýndi við leiðtoga vinstrigræna, nú viku fyrir kosningar, hvernig hann svaraði þeim sem teldu hann vera einhverskonar „mosakommúnista“. Og Steingrímur bætti við: „Oftast eru þetta aðilar sem treysta sér ekki í rökræðuna, þeir eru bullandi á yfirborðinu.“ Nei, Steingrímur kann ekki við það þegar menn reyna að klína einhverjum svona merkimiðum á pólitíska andstæðinga enda hefur hann í áratugi vitað að það gera bara yfirborðsmenn. Svona eins og þeir sem alla daga æpa „nýfrjálshyggjumaður, nýfrjálshyggjumaður“ að andstæðingum sínum. „Komdu þér í stuttbuxurnar drengur“, kallaði virðulegur fjármálaráðherra lýðveldisins frammí fyrir alþingismanni sem í fyrradag gagnrýndi yfirvofandi skattahækkanir vinstrigræna úr ræðustóli alþingis. En í sjónvarpsþáttum hefur Steingrímur J. Sigfússon mikla skömm á uppnefnandi yfirborðsmönnum. Honum finnst þeir líklega vera bæði gungur og druslur.
     
  • Í sama þætti sagði Steingrímur það blóðugt og óþarft hvernig komið væri í efnahagsmálum, því upp úr síðustu aldamótum hefði staðan verið svo ágæt. Já hún var það raunar. Hverjir voru þá búnir að vera í stjórn í áratug og hverjir í stjórnarandstöðu með allt á hornum sér?
     
  • Það eru sennilega að koma kosningar. Í vikunni var sagt frá því í fréttum að hreindýrskálfi yrði sennilega slátrað austur á landi, þar sem hann hefði leyfislaust verið tekinn í fóstur á sveitaheimili eftir að kýrin hefði yfirgefið hann. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Var ekki daginn eftir komin á heimilið sjálf Kolbrún Halldórsdóttir og tilkynnti að kálfurinn fengi að lifa. Fyrir hreina tilviljun voru fréttamenn þarna staddir líka og náðu myndum af því þegar Kolbrún reyndi að gefa kálfinum að éta, en sá fúlsaði reyndar við boði Kolbrúnar og sýndi þannig mennskum kjósendum fagurt fordæmi.
     
  • Þessi árvekni fréttamanna, að vera einmitt þar staddir sem Kolbrún kom óvænt og náðaði kálfinn, var næstum sama afrekið og þegar þeir voru fyrir hreina tilviljun staddir þar sem sár og svekktur hluthafi í FL-Group var á skírdag mættur fyrir utan skrifstofu ríkislögreglustjóra til að „kæra“ styrkveitingu fyrirtækisins til Sjálfstæðisflokksins. Báðar fréttastofur reyndust vera staddar á staðnum einmitt þegar prúðbúinn hluthafinn kom á staðinn. Hvorug stöðin sá ástæðu til að upplýsa áhorfendur um að hinn sári hluthafi væri einnig einn af oddvitum vinstrigrænna á Suðurlandi.
     
  • Af hverju er annars verið að kjósa núna? „Jú af því að þingmenn þurftu að fá nýtt umboð eftir hrunið“, svara þá álitsgjafar og aðrir spunamenn. En hvers vegna var þingið þá fram í vikulokin að samþykkja lagafrumvörp um hluti sem komu efnahagsástandinu ekkert við? Ný lög um vændi. Vinstrigrænir reyndu að fá í gegn lög gegn nektardansi. Og þannig mætti áfram telja. Fyrst er æpt á götum og torgum að þingmenn séu orðnir umboðslausir, en um leið og vinstrigrænir eru teknir við stjórninni, þá virðast þingmenn hafa fengið umboð að nýju.
     
  • Af hverju eru menn farnir að kalla vinstrigræna „vinstrigræn“? Þegar talað var um „vinstrigræna“ þá var ljóst við hvað væri átt. En þegar sagt er „vinstrigræn“, hvað þýðir það? Eða svo spurningin sé orðuð skýrar: Vinstrigræn hvað? Flón? Stórmenni? Börn? Hvaða hvorugkynsorð á að koma þarna á eftir?